Skip to main content

Neistinn í stóðhestaveislu – söfnun

By apríl 22, 2016Fréttir

Þann 9. apríl síðast liðinn var hin árlega stóðhestaveisla haldin af Hrossarækt ehf, en þetta er stærsti og jafnframt vinsælasti innanhússviðburðurinn innan hestaheimsins hér á landi.


Frá árinu 2011 hafa félög tengd börnum og ungmennum verið valið og styrkt. Í ár varð breyting á, tvö félög voru fyrir valinu; Neistinn, styrktarfélag hjartveikra barna, og Kraftur, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem hefur verið greint með krabbamein og aðstandendur þeirra. Í ár varð sú nýbreytni að Auróra velgjörðarsjóður mun einnig styðja við félögin. Vilja félögin heiðra minningu mikils hestamanns sem féll frá á síðasta ári, Einars Öder Magnússonar, en hann glímdi bæði við hjartasjúkdóm og krabbamein. 


Undirrituð fór fyrir hönd Neistans ásamt Írisi Eysteinsdóttur á þessa glæsilegu veislu. Þarna mátti sjá flottustu stóðhesta landsins, frábæra knapa og var stemningin hreint ótrúleg og öll umgjörð í kringum viðburðinn hin glæsilegasta. 


Neistinn og Kraftur voru með kynningarbása þar sem gestir og gangandi gátu fræðst um starfsemi félagana og keypt happdrættismiða af ungmennum frá hestamannafélaginu Spretti, en ágóði þeirrar sölu mun renna til félagana. 


Að lokum viljum við benda á að enn er hægt að kaupa miða í stóðhestahappdrætti Hrossaræktar sem fást í öllum hestavöruverslunum landsins. Vinningar eru m.a. folatollar undir marga af bestu stóðhestum landsins. Dregið verður úr happdrættinu á Landsmóti hestamanna  sem mun fara fram 27. júní – 3. júlí


Einnig er hægt að leggja frjáls framlög til söfnunarinnar inn á kt: 60011-0510 reikn: 0101-15-383439 

 

 

Við þökkum kærlega fyrir okkur

 

Sandra