Skip to main content

Boston – spítalinn og borgin

Childrens’ Hospital Boston (CHB) hefur verið fremstur í hjartaaðgerðum á börnum síðan árið 1938 þegar Robert Gross MD framkvæmdi fyrstu aðgerðina til að leiðrétta meðfæddan hjartagalla. Alla tíð síðan hefur hjartadeild spítalans vaxið og er nú sú stærsta í Bandaríkjunum og ein þeirra fremstu í heiminum.

Á hverju ári gangast u.þ.b. 1.100 börn undir aðgerð á hjartaskurðdeild barnaspítalans með frábærum árangri. Þar af fara um 700 í opna hjartaaðgerð (þar sem hjarta- og lungnavél er notuð) og um 400 í lokaða aðgerð.

Stöðugt er verið að þróa nýja tækni til að meðhöndla margvíslegar gerðir hjartagalla, allt frá einföldum göllum til flókinna og fjölþættra galla og Children’s Hospital Boston (CHB) hefur verið vainn besti barnaspítali Bandaríkjanna mörg ár í röð af læknum og sérfræðingum hvaðanæva úr Bandaríkjunum.

Sjúkrahúsið er þekkt fyrir framúrskarandi heilbrigðisþjónustu og rannsóknir, m.a. á sviði hjarta- og hjartaskurðlækninga, taugalækninga, bæklunarlækninga, krabbameinslækninga og líffæraflutninga.

Auk heilbrigðisþjónustunnar leggur CHB sig fram um að bjóða upp á mjög góða stuðnings- og upplýsingaþjónustu fyrir sjúklinga og fjölskyldur þeirra.

Þjónusta og afþreying á spítalanum og í Boston

Á Children’s Hospital er boðið upp á mjög fjölbreytta þjónustu og aðstöðu fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra. Má þar nefna matstofur, leikherbergi, kaffibar, þvottaaðstöðu, internetaðstöðu, sálfræðiaðstoð, trúarstuðning og hraðbanka.

Hér er einnig fjallað um hvernig hægt er að stytta sér stundir í Boston, þegar færi gefast. Bent er á hvar best er að fara í göngutúra, versla, borða úti o.fl.

Sjá nánar á þessum síðum:

Þjónusta á Children’s Hospital

Næring og börn á brjósti
Sími og Internet
Afþreying í Boston o.fl.

Þjónusta á spítalanum í Boston – hvað er hvar
Margs kyns þjónusta stendur sjúklilngum og aðstandendum til boða á Children’s Hospital Boston.  Hér á eftir eru taldir nokkrir hlutir sem að gagni geta komið en framboðið er afar fjölbreytt (s.s. heimsókn dýra og trúða) og hér á vef spítalans getið þið kynnt ykkur nánar það sem í boði er: Hospital Support Services.

Ef það er eitthvað sem ykkur vanhagar um skuluð þið ræða það við hjúkrunarfræðing ykkar eða líta við í International Center.

 

International Center

Hafið samband við alþjóðamiðstöðina (International Center) við fyrsta tækifæri – þó ekki væri nema til að láta vita að þið eruð komin.  International Center (I.C.) heldur utan um allar upplýsingar um erlenda sjúklinga, s.s. hvernig hægt er að hafa við þá samband.  I.C. er í sambandi við Sjúkratryggingar Íslands og veit því að komu ykkar fyrirfram og heldur S.Í. upplýstum um dvöl ykkar í Boston.

 

Í alþjóðamiðstöðinni (International Center) getið þið jafnframt fengið aðstoð við öll þau vandamál sem tengjast því að vera í framandi umhverfi í Boston og á spítalanum.

International Center er á 1. hæð í Farley / Pavillon byggingunni (gult á kortinu hér fyrir neðan), strax til hægri þegar komið er upp tröppurnar úr anddyrinu.

 

Nánari upplýsingar um þjónustu International Center má sjá hér.

 

Hér er kort af anddyri (ljósblátt) og jarðhæð aðalbyggingar (vínrautt) og 1. hæð Farley/Pavillion-hluta spítalans (gult).

Neðan við eru 3 ljósmyndir af því sem blasir við þegar komið er í anddyri (Main Entrance).

Til vinstri eru tröppur upp á 1. hæð.  Framundan er upplýsingaborð.  Til hægri eru lyftur upp á efri hæðir spítalans.
Smellið á myndina til að stækka hana.

 

Aðgangspassar

Sjá Foreldrapassar

 

Andlegur / tilfinningalegur stuðningur
Medical Coping Team hjálpar fólki að fást við þá tilfinningalegu erfiðleika sem upp geta komið við sjúkrahúsdvöl barna.  Hringið í síma 617-355-6688, komið við hjá þeim á 8. hæð í Fegan byggingunni (sjá á korti hér) eða kíkið á vefsvæði þeirra hér.

 

Family Center (fjölskyldumiðstöð) er á 1. hæð, nærri útganginum í spítalagarðinn.
Sjá nánar um fjölskyldumiðstöðina hér.

 

Félagslegur stuðningur og hjálpsamir sjálfboðaliðar
Gott gæti verið að spjalla við félagsfræðing um erfiðleika af ýmsum toga sem tengjast sjúkrahúsdvölinni.  Sjá vefsvæði þeirra hér.  Hringið í síma 617-355-7965 eða biðjið hjúkrunarfræðinginn að koma á sambandi.  Spítalinn býður auk þess upp á heimsókn sjálfboðaliða sem eru reiðubúnir að létta undir með foreldrum á ýmsan hátt. Ef þið viljið notfæra ykkur aðstoð stuðningsmanna spítalans, biðjið hjúkrunarfræðinginn ykkar að koma ykkur í samband við þá.

 

Foreldrapassar
Foreldrar skulu vera með passa sem auðveldar þeim ferðir inn og út af spítalanum á hvaða tíma sólarhringsins sem er.
Myndataka og afhending við upplýsingaborð (Information) í anddyri.  Sjá nánar hér.

 

Foreldrastund (Parent Coffee Hour)
Á flestum deildum eru vikulegar foreldrastundir.  Endilega kíkja þangað.  Spyrjið hjúkrunarfræðinginn um stað og stund.

 

Garðurinn
Huggulegur garður, en ekki mjög stór, er við spítalann.  Þangað er sniðugt að fara með barnið þegar það er orðið rólfært án þess að fara út af spítalanum.
Farið er út í garðinn af fyrstu hæð, nærri Family Center (sjá á korti hér að ofan).

 

Hraðbanki (ATM)
Hraðbanki er á stigapalli á fyrstu hæð til hægri ef gengið er upp tröppurnar úr aðalinngangi spítalans.  Fleiri hraðbankar eru til vinstri þegar komið er upp á fyrstu hæð.

 

Hvar er barnið á spítalanum?
Yfirleitt er barnið mestan hluta tímans á legudeild (Cardiac Inpatient Unit) sem heitir 8 East og er á 8. hæð spítalans.
Fyrst eftir aðgerð fer það þó á gjörgæslu (Intesive Care Unit, ICU), 8. South.

 

Kapella

Sjá Trúarlegur stuðningur

 

Leikaðstaða
Leikherbergi er á legudeildinni, 8 East, fullt af spennandi leikföngum, bókum og kvikmyndum á diskum og snældum.  Enn fremur er leikaðstaða á öllum biðstofum, t.d. við innritun, röntgenstofur o.fl.

 

Matur á spítalanum
Mötuneyti (Cafeteria).  Mötuneyti er á jarðhæð (sjá „Að kaffiteríu“ á korti).  Farið er inn hjá lyftunum hægra megin í anddyri, síðan til vinstri langan gang og lengra til vinstri.  Þar er úrval af prýðilegum mat á viðráðanlegu verði.
Au Bon Pain. Au Bon Pain blasir beint við innst í anddyrinu.  Þar er hægt að fá hollan og góðan bita – og alvörukaffi. Ekki alveg ókeypis.
Sjúklingar og konur með barn á brjósti fá frían mat af matseðli (úr kaffiteríu).  Sjá nánar hér.

 

Mjaltavélar (Breast Pump)
Þær mæður sem þurfa að nota mjaltavélar hafa aðgang að þeim í sérstökum herbergjum. Í Family Center er hægt að fá leigðar mjaltavélar til að fara með út af spítalanum. Sjá nánar hér.

 

Trúarlegur stuðningur (Pastoral care)
Hægt er að fá trúarlegan stuðning á spítalanum, hvaða trúarbrög sem fólk aðhyllist.  Hringið í síma 617-355-6664, eða farið í Kapellu allra trúarbragða (Interfaith Chapel) rétt við Family Center á 1. hæð.
Skipulag bænastunda má sjá hér, Current listing of service times en einnig er hægt að fá að skipuleggja eigin athafnir.  Þá er hægt að panta tíma hjá prestum og öðrum trúarleiðtogum á Chaplaincy síðunni.

 

Tölvuaðstaða
Hægt er að komast í tölvur í Family Center.  Enn fremur er tölvuaðstaða á legudeildinni (8 East).  Auk þess er frír aðgangur að háhraðaneti víðast um spítalann, t.d. bæði á legudeild og gjörgæslu.
Family Center er á fyrstu hæð, nærri útganginum í garðinn (sjá á korti hér að ofan).

 

Þvottaaðstaða (Laundry)
Þvottavélar og þurrkarar eru á 1. hæð í Bader álmu spítalans.  Gott er að hafa með sér góða handfylli af 25 senta mynt („quarters“) til að þvo og þurrka.  Þar má kaupa þvottaefni sem einnig fæst í verslun á fyrstu hæð. Sjálfsagt er að taka með sér milt þvottaefni ef barnið er með viðkvæma húð.  Sjá “Þvottaaðstaða” á kortinu efst á síðunni.

Næring og börn á brjósti

Áður en lagt er í hann
Áður en haldið er út er gott að huga að þvi að fá mjaltavél fyrir ferðalagið. Á Vökudeildinni er hægt að fá lánaða slíka vél til að hafa með í flugið.  Þá tekur hjúkrunarfræðingurinn (eða læknirinn) sem fer með mjaltavélina til baka.  Einnig er hægt að leigja mjaltavélar hjá Móðurást og Hátækni.  Hana er einnig handhægt að nota þegar skroppið er af spítalanum í nokkra tíma (t.d. í verslunarmiðstöð o.s.frv.).

 

Gott er að ræða við hjúkrunarfræðinga/ljósmæður Vökudeildar um notkun mjaltavéla og mjólkurframleiðslu með mjaltavél áður en barnið útskrifast.

 

 

Mjólkun

Ráðlagt er að hefja mjólkun sem fyrst eftir fæðingu, helst innan 6 klst. Mjólka sig í 10-15 mínútur í hvert sinn fyrstu dagana en um leið og mjólkin er komin í brjóstin þá þarf að auka tímann og huga vel að því að tæma brjóstin í hverri mjólkun.  Þá er viðmiðið um 20-30 mín. í hverri mjólkun.

 

Mikilvægt er að mjólka sig um 8 sinnum á sólarhring og ekki láta líða lengra en 3-4 klst á milli á daginn. Það er i lagi að taka hvíld yfir nóttina, þó helst ekki meira en í 5-8 klst.  Mikilvægt er að nota sem oftast tvöfalt mjaltasett ef hægt er, því þá tekur mjólkunin styttri tíma auk þess sem það getur stuðlað að aukinni mjólkurframleiðslu. Í upphafi kemur lítið magn mjólkur, eða u.þ.b. 10 – 100 ml á sólarhring. Magnið eykst yfirleitt á 3. til 5. degi.

 

Til viðmiðunar:
300 ml á sólarhring á 5. degi
500 ml á sólarhring á 7. – 14. degi
> 800 ml á sólarhring frá viku 3 – 4

Heildarmagnið sem kemur úr brjóstunum á sólarhring er það sem er mikilvægast, en ekki það magn sem kemur í hverri mjólkun.

 

Í Lundi

Þegar út er komið er best að biðja strax um mjaltavélarbeiðni á gjörgæslunni (BIVA) eða á Barnahjartadeildinni (Deild. 67).  Með hana farið þið niður í Portvakten (öryggisgæslan), þar sem mjaltavélin fæst afhent.
Portvakten er í litlu húsi að Entrégatan 2, skáhalt á móti Sjúkrahótelinu (sjá ör á kortinu hér til hægri).  Hún er opin allan sólarhringinn.  Munið eftir skilrikjum.  Portvakten lætur þig fá góða Medela mjaltavél þér að kostnaðarlausu (Sjúkratryggingar Íslands greiða).
Henni er svo skilað við heimför.

 

Ílát fyrir mjólkina færðu endurgjaldslaust á deildunum (BIVA og Deild 67). Mundu að merkja vel með nafni og kennitölu barns, dagsetningu og tímasetningu áfyllingar.  Starfsfólk deildanna taka svo við mjólkinni hja þér og geyma, ýmist i frysti eða kæli.

 

Ef þú mjólkar meira en barnið þarf á að halda og þú sérð fram á að þurfa að skilja mjólk eftir við brottför þá er hægt að gefa  mjólkurbankanum á nýburadeildinni afgangsmjólk til annarra barna.  Hringdu í sima 0046-718438. Ef ekki er svarað, talaðu þá inn á símsvara og það verður haft samband við þig. Starfsmenn sjúkradeildanna geta einnig leiðbeint þér.

 

 

Í Boston

Hægt er að fá leigðar rafmagnsdælur á spítalanum í Boston í svokölluðu „Family center“ ef fólk vill vera með dælu á hótelinu sem gist er á. Gott er að leigja ísskáp á hótelinu til að geyma mjólkina í t.d. yfir nótt.

 

Á spítalanum sjálfum eru herbergi með dælum og aðstöðu („Lactation rooms“) bæði á gjörgæslunni (CICU á 8-South) og á hæðinni þar sem foreldrar bíða meðan barnið er í aðgerð (3. hæð). Meðan dvalið er á legudeildinni (8-East) er hægt að fá lánaða dælu inn á herbergið eða fara yfir á gjörgæsluna og nota mjaltaherbergið þar.

Starfsfólk spítalans útvegar ílát undir mjólkina og merkimiða og sér um að koma henni í kæli/frysti.

 

Á spítalanum eru starfandi brjóstagjafaráðgjafar sem eru boðnir og búnir að aðstoða við allt sem tengist brjóstagjöf og mjöltum. Hjá ráðgjöfunum er hægt að fá dælusett í mismunandi stærðum fyrir þær sem það þurfa, fá kælitöskur undir mjólkina og kaupa brjóstapúða, krem og gjafahaldara.

Ef umframbirgðir af brjóstamjólk hafa safnast upp meðan barnið hefur verið að jafna sig eftir aðgerð aðstoða brjóstaráðgjafarnir við að pakka henni þannig að auðvelt sé að taka hana með sér heim, og útvega allar nauðsynlegar merkingar og bréf til starfsfólks á flugvelli.

 

Á spítalanum eru líka starfandi næringarfræðingar sem ráðleggja um mataræði barna eftir aðgerð.

Til að ná tali af brjóstaráðgjafa eða næringarfræðingi er best að biðja hjúkrunarfræðing á vakt að hafa samband við þau.

 

 

Eftir að heim er komið
Sum börn fá viðbót út í brjóstamjólkina eftir aðgerð til að auka hitaeiningainnihald hennar. Þetta er annars vegar þurrmjólkurduft og hinsvegar kolvetnaduft.  Hér á landi fæst hvorki þurrmjólkurduftið sem mælt er með úti, né kolvetnaduftið sem oft er skrifað upp á (Polycose).  Ef barnið er enn að fá þessa viðbót eftir að heim er komið, er t.d. mælt með SMA gold þurrmjólkurdufti og kolvetnadufti frá Nestlé sem heitir Resource® orkuduft (energipulver) og fæst í Lyfju.   Á Landspítalanum eru einnig starfandi næringarráðgjafar sem hægt er að hringja beint í og öruggast er að ráðfæra sig við þá.

Fyrir þá sem vilja fylgjast með þyngd barnsins eftir að heim er komið er hægt að fá lánaða stafræna vigt á Landspítalanum (gegnum hjartalæknana).

 

Sérstaklega er fólki bent á Leiðarljós, stuðningsmiðstöð fyrir fjölskyldur barna með sjaldgæfa og alvarlega langvinna sjúkdóma.  Fólkið þar hefur veitt okkur góða aðstoð með næringarmálin og fleira. Hikið ekki við að hafa samband við Leiðarljós ef þið teljið ykkur þurfa á aðstoð eða leiðbeiningar við ummönnun barnsins.

Þegar barnið byrjar að borða mat er stundum mælt með því að bæta matarolíu (og annarri þeirr fitu sem handhæg er og hentar) út í fæðuna.

 

Vandamál

Sárar geirvörtur:  Ef geirvörturnar verða sárar eða aumar er gott að bera mýkjandi krem á þær, t.d.
Lansinoh eða Purelan. Þau fást i apóteki sjúkrahússins (í Lundi: Beint á móti Portvakten  [fást einnig í Jattekul sem er alhliða barnavöruverslun í nágrenni sjúkrahússins] –  í Boston: Í anddyri).
Einnig er mjög mikilvægt að huga að stærð mjólkur-skjaldanna og þrýstingnum sem notaður er á mjaltavélinni, ekki bíða of lengi með að leita þér aðstoðar.
Minnkandi mjólkurframleiðsla:  Ekki hafa áhyggjur þó mjólkin minnki eða erfiðlega gengur að koma mjólkurframleiðslunni i gang.  Þú ert undir miklu álagi sem hefur bæði áhrif á mjólkun og losun. Reyndu að slaka á, borða vel, drekka og sofa og jafnvel að mjólka þig þegar þú ert hjá barninu.
Ekki nóg mjólk:  Ef þú mjólkar ekki nóg, eða missir mjólkina alveg, ekki hafa áhyggjur. Þó móðurmjólkin sé almennt talin besta mögulega fæða ungabarna, þá er þurrmjólkin (formúlur) sérhönnuð fyrir ungabörn og inniheldur öll nauðsynleg næringarefni sem ungabörn þurfa, og er góð hvort sem er sem ábót eða í fullt mál.  Hana færðu frítt á sjúkrahúsinu.  Sjá uppskriftir hér fyrir neðan.
Einnig gæti verið hægt að fá brjóstamjólk úr brjóstamjólkurbanka sjúkrahússins (spyrjist fyrir um það).
Mikilvægt er að leita sér fljótt aðstoðar ef upp koma vandamál, því oft þarf litla breytingu til að ná góðum árangri. Til dæmis er hægt að fá Syntocin hormónanefsprey, en það getur aukið losunarviðbragð og þar með mjólkurflæði. Það er hægt að nálgast í apótekinu.

 

Ekki vera feimin við að biðja starfsmenn deildarinn um aðstoð, þeir eru þarna til að aðstoða ykkur
Uppskriftir

Eftirfarandi eru uppskriftir að blöndum eftir því hversu margar hitaeiningar læknir eða næringarfræðingur hefur ráðlagt fyrir barnið: (Í brjóstamjólk eru ca. 20 hitaeiningar í 30 ml.).

24 hitaeiningar í 30 ml. :

90 ml. brjóstamjólk, 1 tsk. þurrmjólk

(180 ml. brjóstamjólk , 2 tsk. þurrmjólk)

26 hitaeiningar í 30 ml. :

90 ml. brjóstamjólk, 1 og 1/2 tsk. þurrmjólk

180 ml. brjóstamjólk , 1 msk. þurrmjólk

28 hitaeiningar í 30 ml. :

90 ml. brjóstamjólk, 1 og 1/2 tsk. þurrmjólk, 1 tsk. kolvetnaduft

180 ml. brjóstamjólk , 1 msk. þurrmjólk, 2 tsk. kolvetnaduft

30 hitaeiningar í 30 ml. :

90 ml. brjóstamjólk, 1 og 1/2 tsk. þurrmjólk, 1 og 1/2 tsk. kolvetnaduft

180 ml. brjóstamjólk , 1 msk. þurrmjólk, 1 msk. kolvetnaduft

 

Ef ekki er notuð brjóstamjólk heldur einungis þurrmjólk:

30 hitaeiningar í 30 ml.:

2 msk. þurrmjólkurduft, 1 og ½ tsk. kolvetnaduft – bætt vatni upp í 90 ml. (samtals, með duftinu).

 

Nánari upplýsingar

Styrkir:

Hægt er að sækja um styrk til Sjúkratrygginga Íslands til kaupa á sérfæði og næringarefnum til að mæta orkuþörf barna þar sem hamlandi líkamsstarfsemi veldur vandkvæðum við fæðuinntöku. Læknir og/eða næringarfræðingur metur þörfina og sækir um styrk á sérstöku eyðublaði. Læknisvottorð þarf að fylgja umsókninni, sem er send undirrituð til lyfjadeildar Sjúkratrygginga Íslands áður en næringarefnin eru keypt. Ef umsóknin er samþykkt fær viðkomandi skírteini sem þarf að framvísa við kaup á efnunum.

Hér má finna bæði umsóknareyðublað og reglugerð um styrki til kaupa á næringarefnum og sérfæði, en stuðst er við þessa reglugerð þegar umsóknir eru metnar: http://www.sjukra.is/lyf-og-hjalpartaeki/naering-og-serfaedi/.

 

Heilsugæslustöðvar:  Á Landspítalanum og á sumum heilsugæslustöðvum eru starfandi brjóstaráðgjafar sem gott er að leita til með hvers kyns spurningar varðandi brjóstagjöf

 

Facebook: Á Facebook eru ýmsar síður og lokaðir hópar þar sem mæður geta rætt brjóstagjöf og fengið ráð hjá öðrum.

 

Ýmsar vefsíður:  Ýmsar vefsíður fjalla á gagnlegan hátt um brjóstagjöf. Þar má nefna eftirfarandi:

http://brjostagjof.is/  –  Tekur á flestu sem upp getur komið í brjóstagjöf á einfaldan hátt.

http://barnid-okkar.is  –  Allt um uppeldi með sérstaka áherslu á brjóstagjöf.

http://draumaborn.is  –  Opnir og lokaðir spjallhópar um allt sem viðkemur börnum

 

Sími og Internet

Á spítalanum

Sími
Á hverri stofu er sími sem hægt er að hringja úr ef keypt eru símakort (ókeypis þó að hringja innan svæðisnúmers).  Einnig er hægt að láta hringja í sig í þann síma.  Hann hefur talhólf sem viðkomandi getur talað í ef maður er ekki á stofunni.

 

Internet
Ókeypis Internetaðgangur er á hverri stofu, þráðlaus en einnig er hægt að tengjast með netsnúru.  Báðar leiðir eru mjög hraðvirkar (snúruleiðin þó hraðari) en njög strangar síur eru á ruslsíður (ekki t.d. hægt að tengjast Facebook).
Almennt um símhringingar í Boston

Það kostar ekkert að hringja innanbæjar innan sama svæðisnúmers úr símunum á spítalanum og hótelinu.

GSM símar
Flestir nýrri GSM símar virka í USA (triband/1900 megariða).  Hins vegar er mjög dýrt að nota farsíma að staðaldri til að hringja milli landa.  Sérstaklega er dýrt að hringja milli tveggja íslenskra síma í útlandinu.  Gott getur þó verið að hafa bandarískan farsíma fyrir hringingar í (og úr) þarlend númer (sjá GSM frelsi hér að neðan).

 

GSM ‘frelsi’
Hægt er að fá ‘frelsi’ (prepaid) til að hringja milli síma úti í Bandaríkjunum.  Þá er best að fara í Best Buy og kaupa prepaid símakort (hægt að kaupa frá 20 dollurum og upp úr).  Með kortinu fær maður bandarískt símanúmer sem gott er að hafa þarna úti ef spítalinn þarf að ná í mann eða aðstandendur hver í annan.
Snjallt er að biðja starfsmann Best Buy um að virkja kortið því það þarf að gera úr bandarísku númeri.

 

Almenn símakort
Símakort fást í flestum verslunum og er þá mun ódýrara að hringja vilji maður nota fastlínusíma. Þau fást m.a. í CVS apótekum (t.d. í anddyri spítalans og í Longwood Galleria). Leiðbeiningar um notkun eru aftan á kortunum.

Hringt er í ákveðið þjónustunúmer, síðan slegnir inn nokkrir tölustafir (pin númer) sem eru mismunandi eftir hverju korti, síðan 001 út úr landinu, þá landsnúmerið okkar (354) og loks símanúmerið sem þú vilt hringja í t.d. 001-354-5431000.

 

Hringt í gegnum tölvu – Skype
Vilji menn hringja heim til Íslands er ódýrasti kosturinn að hringja í gegnum tölvuna t.d. með Skype-forritinu.  Þá kostar símtal til Íslands það sama og innanlandssímtal á Íslandi.

Með Skype-forritinu getur maður hringt ókeypis í aðra Skype-notendur en einnig er hægt að hringja í síma hver sem er í heiminum og kostar þá símtalið jafn mikið og sambærilegt innanlandssímtal viðmælandans.  Hægt er að hlaða Skype niður af www.skype.com, og þá er ráðlegt að kaupa inneign fyrir 10-20 evrur.  Athugið að til að tala í gegnum tölvuna er langbest að vera með heyrnartól með hljóðnema á.

Afþreying í Boston
Það getur verið gott að hreyfa sig svolítið frá spítalanum ef færi gefst.  T.d. meðan barnið er á gjörgæslu, ekki síst ef það er enn sofandi.  Ef aðstoðarmaður er með í ferð ættu foreldrar að fá að fara saman út að borða a.m.k. einu sinni og svo er hægt að skiptast á og kíkja í búðir o.s.frv.

Hér er hægt að finna ýmsa staði sem flestir eru tiltölulega nálægt spítalanum eða niðri í bæ, þar sem auðvelt er að nálgast í grænu lestinni eða í leigubíl.

Smellið á það sem þið hafið áhuga á til að fá nánari upplýsingar, s.s. varðandi heimilisföng, opnunartíma, aðgangseyri o.s.frv.  Þar má líka sjá staðsetningu þeirra á korti.

 

Söfn, bíó o.fl.

Í nágrenni spítalans er að finna nokkra athyglisverða staði s.s. Museum of Fine Arts.  Niðri í bæ eru ekki minna spennandi staðir eins og Children’s Museum.  Sjá nánar hér.

 

Veitingar
Nálægt spítalanum eru nokkrir staðir, sem gott er að fá sér að borða, s.s. Bertucci’s pizzeria.  Boston er náttúrulega full af spennandi veitingahúsum og er einfalt að nálgast eins og Cheesecake Factory með grænu lestinni. Sjá nánar hér.

 

Verslun

Medical Center Coop, handan götunnar gegnt spítalanum, er skemmtileg Harvard-minjagripabúð.  En fyrir almennileg innkaup er það miðbærinn eða Cambridgeside Galleria.  Sjá nánar hér.

 

Garðar

Nokkur skemmtileg útivstarsvæði eru í nágrenni spítalans, s.s. Riverway Park (meðfram Muddy River).  Niðri í bæ eru síðan Boston Public Gardens og fleiri huggulegir garðar.  Sjá nánar hér.

 

Gagnvirkt kort
Hægt er að opna gagnvirkt kort til að finna fleiri staði, s.s. austurlenska veitingastaði o.fl. Þá er þar hægt að þysja inn og út, sjá ljósmyndir af stöðunum og nágrenni þeirra og mæla vegalengdir, svo eitthvað sé nefnt.
Til að kynnast betur gagnvirka kortinu smellið hér.