Umönnun eftir aðgerð

 

Skurðurinn/sárið og meðferð hans

Við útskrift er búið að fjarlægja umbúðir af sárinu en stundum er eins konar límband yfir því („Steristrip“).  Það á ekki að fjarlægja heldur dettur það af eftir viku til 10 daga (ef það er ekki farið eftir 2-3- vikur, skal fjarlægja það).

Einstaka sinnum er plástur á því („Band-Aid“).  Hann er skipt um daglega þar til sárið er vel gróið.  Gott er að fá ráðleggingar hjá hjúkrunarfræðingi hverju sinni um umönnum sársins.

Fyrsta árið eftir aðgerð skal hylja örið fyrir sólarljósi.

Ekki klóra í sárið .  Eðlilegt er að skurðurinn sé aðeins rauður og hrúður sé á honum en það getur komið sýking í hann og einkenni um sýkingu eru eftirfarandi: roði, bólga, vökvi eða gröftur, hækkaður líkamshiti og stundum gliðnaður skurður.  Ef einhver þessara einkenna koma fram skal hafa samband við lækni eða hjúkrunarfræðing.

Böðun

Fyrstu vikuna eftir aðgerð á skurðurinn ekki að blotna.  Ef þörf krefur má þvo barninu með svampi eða klút.

Eftir að drensaumarnir hafa verið fjarlægðir má barnið fara í sturtu. Það má líka fara í bað en þá á vatnið ekki að ná yfir skurðinn.  Það er í lagi þó hann blotni aðeins en hann á ekki að liggja í vatninu.  Skurðurinn er þerraður varlega með því að leggja handklæði á hann. Ágætt er að bíða með baðið þar til mánuður er liðinn frá aðgerð.

Óhætt er að fara í sund 6 vikum eftir aðgerð en mælt er með því að ráðfæra sig við lækni áður en farið er með barn í ungbarnasund vegna möguleika á að fá vatn í lungun.

Hreyfing

Það tekur beinið í brjóstkassanum 4 – 8 vikur að gróa (fer eftir aldri).  Meðan bringubeinið er að gróa skal ekki taka börnin upp með því að lyfta undir hendur þeirra heldur styðja undir rassinn með annarri hendi og efsta hluta baksins/höfuðið með hinni.

Best er að hafa samráð við lækni um það hvenær barnið er tilbúið til að fara í skóla/leikskóla eða til dagmóður.

0-1 árs

Bringubeinið grær á 4 – 6 vikum.  Ef barnið er ekki enn farið að liggja á maganum fyrir aðgerð skal bíða með að hvetja til þess þar til u.þ.b. 4 vikum eftir aðgerð.  Ef barnið hins vegar veltir sér sjálft yfir á magann fær það að halda því áfram.

Forskólaaldur

Bringubeinið grær á u.þ.b. 6 vikum.  Eftir heimferð getur barnið smátt og smátt farið að taka meiri þátt í leikjum.  Yfirleitt þarf ekki að halda aftur af börnum þar sem þau finna sjálf hve mikið þau geta reynt á sig.  Undantekning eru þó hópleikir þar sem ákafinn getur orðið mikill og barnið er í meiri hættu á að detta.

Ekki skal hanga á höndunum fyrstu vikurnar eftir aðgerð.

Skólaaldur

Bringubeinið grær á u.þ.b. 6-8 vikum.  Forðist högg og pústra og ekki skal lyfta þungum hlutum á þessu tímabili.  Þar sem meiri hætta er á falli á hjólaskautum, hjólabrettum og reiðhjólum er rétt að láta þessa hluti bíða fyrsta mánuðinn.  Hægt er að byrja að taka þátt í leikfimitímum 6-8 vikum eftir aðgerð.  Best er að byrja rólega en auka álagið jafnt og þétt.  Þetta þýðir þó ekki að maður þurfi að forðast allt álag, létt hreyfing og göngutúrar eru bara af hinu góða.

Ekki skal hanga á höndunum fyrstu vikurnar eftir aðgerð.

Næring

Mikilvægt er að barn fái fjölbreytt og næringarríkt fæði eftir aðgerð. Gæta skal hófs í neyslu salts, fitu og sykurs.  Gott er að ráðfæra sig við næringarfræðing.

Ungabörn þurfa oft viðbótarefni í fæðuna til að auka hitaeiningainnihald hennar.  Læknir eða næringarfræðingur ráðleggur um slíkt.

Sjá hér um næringarmál í- og eftir Bostonferðir.

Svefn

Börn geta haft martraðir og sofið órólega fyrstu vikurnar eftir aðgerð.  Þetta eru álitin eðlileg viðbrögð barnsins við því sem það hefur gengið í gegnum á sjúkrahúsinu.

Lyf

Lyf eru gefin eftir fyrirmælum læknis, og læknir eða hjúkrunarfræðingur leiðbeinir um það hvernig á að gefa þau.

Verkir

Við verkjum eftir aðgerð má gefa börnum verkjalyf í samráði við lækni eða hjúkrunarfræðing og fylgja skal fyrirmælum þeirra um skammtastærðir.  Í U.S.A er algengt er að þeim sé gefið Acetaminophen (Tylenol) eða Íbúfen (heitir Ibuprofen eða Motrin ef keypt úti). Acetaminophen er sama lyf og Paracetamól, sem er notað í Svíþjóð og á Íslandi.  Þessi lyf eru verkjastillandi og hitalækkandi.  Ekki má gefa Tylenol og Paracetamól  á sama tíma.

Hjartaþelsbólga – skurðsár og tannhirða

Hjá börnum sem hafa fæðst með hjartagalla er aukin hætta á að fá hjartþelsbólgu („Subacute Bacterial Endocarditis, SBE“). Það getur gerst þegar barnið fer í einhverskonar aðgerð þar sem sýklar komast inn í blóðrásina (t.d. af áhöldum sem notuð eru í aðgerðinni). Þetta á m.a. við um tannaðgerðir. Þó hvítu blóðkornin eyði sýklunum er yfirborð á hjarta- og æðavef þessara barna oft hrjúft svo sýklar geta safnast þar saman og valdið sýkingu.

Hjartaþelsbólga er þó sjaldgæf en þess virði að verjast henni.

Ef slík sýking kemur upp þarf að meðhöndla hana með sýklalyfjagjöf í æð og liggur barnið á sjúkrahúsi meðan á meðferðinni stendur.

Til að draga verulega úr líkum á sýkingu eru oft gefin sýklalyf í samráði við lækni fyrir og eftir aðgerð sem getur komið sýklum inn í blóðrásina.  Þetta á m.a. við um ýmsar tannaðgerðir.

Einnig er mikilvægt að huga vel að tannhirðu og fara reglulega með barnið til tannlæknis þar sem tannskemmdir geta opnað leið fyrir sýkingu í hjartanu.  Hægt er að fá upplýsingar hjá tannlæknum um það hvort þau lyf sem barnið tekur auki líkur á skemmdum en gott er að skola munn eða bursta tennur eftir lyfjagjöf þegar það á við.

Eftirlit

Börnin eru svo áfram í eftirliti hjá lækni sínum hér heima eins lengi og þörf krefur (sjá nánar hér).

Innúðalyf

Lungu hjartabarna geta stundum verið viðkvæm og læknar ráðleggja oft notkun á svokölluðu „pústi“, eða innúðalyfi, af minna tilefni en ella.  Barnið andar að sér lyfinu sem verkar á lungun og hefur ýmist berkjuvíkkandi eða bólguhamlandi áhrif.

Bólusetningar

Yfirleitt geta hjartabörn fengið venjubundnar bólusetningar en þó getur þurft að fresta þeim eða hliðra til eftir aðstæðum.  Stundum ráðleggur læknir bólusetningu við inflúensu og þá jafnvel hjá öllum á heimilinu.  Best er að ræða þessi mál við lækni barnsins.

Ef grunur er um vandamál

Alvarleg vandamál í eða eftir hjartaaðgerð eru ekki algeng.  Samt þarf að hafa augun opin fyrir ákveðnum einkennum sem gefa til kynna að þörf sé á nánari skoðun.
Hafið samband við lækni eða hjúkrunarfræðing ef eitthvað af eftirfarandi á við:

· Barnið er með líkamshita yfir 38°c, flensueinkenni eða virðist slappt

· Erfiðlega gengur að gefa barninu lyf

· Barnið borðar/drekkur lítið, léttist eða svitnar þegar það matast

· Breytingar verða á litarhætti barnsins (verður t.d. fölt, bláleitt eða gráleitt)*

· Andardráttur barnsins verður ör eða það á erfitt með andardrátt

· Roði, bólga, vökvi eða gröftur kemur fram í skurðsári

 

* Stundum blár litur kringum munn, á vörum og tungu

 

Ef spurningar vakna eftir heimferð má hafa samband við  Barnaspítala Hringsins (eða barnahjartadeildina í Lundi).

Ef bráð tilvik koma upp er hægt að hafa samband við eða koma með barn á Bráðamóttöku barna, sem er opin allan sólarhringinn.

Bráðamóttaka barna, Barnaspítala Hringsins                                sími: 543-1000
Vakthafandi læknir Barnaspítala LSH                                           sími: 543-1000
Barnadeildin Lundi (deild 67)                                                      sími: +46 (0)46 178067.

Flug

Í flestum tilfellum er óhætt að ferðast með flugi eftir útskrift.