Skip to main content

Hákon Torfi hjartastrákur❤️

Hákon Torfi fæddist í september 2014 með TGA, VSD og þrengingu í lungnaslagæð.

Við fórum með hann til Lund í Svíþjóð 4 daga gamlan og hann fór í aðgerð 5 daga gamall.

Það var ekki hægt að laga gallann hans þannig að hann fór í 3 aðgerðir til að breyta æðakerfinu hjá honum.

Fyrstu strax eftir fæðingu, aðra þegar hann var fjögurra mánaða og síðustu þegar hann var eins og hálfs árs.

Hann stóð sig eins og hetja í öllum aðgerðunum sem gengu eins og í sögu.  Allt gekk vel og við lentum í sáralitlum bakslögum. Smá bras með þyngdartap eftir fyrstu aðgerð og aðeins lengri tími með dren í síðustu aðgerð sem lengdi aðeins tímann okkar á spítalanum.

Í okkar tilfelli þá vissum við af hjartagallanum í 20 vikna sónar og vorum þess vegna  vel undirbúin fyrir þetta ferli þegar við loksins fengum hann í hendurnar. Það er alls ekki sjálfsagt að allt gangi upp eins og planað er í upphafi en við vorum afar lánsöm og erum full af þakklæti.

Í dag er Hákon 8 ára og hittir sinn hjartalækni á rúmlega hálfs árs fresti og hingað til hefur hann alltaf fengið toppeinkunn eftir skoðun.

 

Þótt það hafi þurft að fara aðra leið en að laga gallann þá háir þetta honum ekki í daglegu lífi. Þegar hann stækkar þá gæti hann fundið fyrir minna þreki en jafnaldrar sínir en við búum hann vel undir það og finnum tómstundir og athafnir sem henta vel. Í dag þá æfir hann samkvæmisdansa og við förum eins oft og við getum í sund. Hann hefur mikinn áhuga á tölum og stærðfræði og mjög forvitinn um heima og geyma.

Fjölskyldan fór á fullt í Neistanum eftir að hann fæddist og hefur mamma hans setið í stjórn síðan hann var 4 mánaða gamall með smá pásu. Pabbinn farið ótal sendiferðir til að redda hlutum fyrir viðburði. Báðir foreldrar hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu árlega og amman heklar og prjónar á fullu fyrir félagið.

 

Við getum með sanni sagt að við séum stolt hjartafjölskylda með Hákon Torfa sterkan í fararbroddi ❤️❤️❤️