Skip to main content

Undirbúningur sjúkrahúsdvalar


Undirbúningur fyrir sjúkrahúsdvöl fer að miklu leyti eftir aldri barnsins sem á í hlut hverju sinni.
Fyrir yngstu börnin (0 – 2 ára) er ráðlagt að taka með eitthvað kunnuglegt að heiman eins og leikfang eða teppi.

Börnum á aldrinum 2 til 5 ára er hægt að segja daginn áður að þau séu að fara á spítalann á morgun til að láta skoða hjartað. Gott er að bjóða þeim að velja hvað þau vilji taka með sér til dæmis uppáhaldvideóspólu eða tónlist, bangsann sinn eða önnur uppáhaldsleikföng.

Börn á forskólaaldri (5 til 6 ára) er hægt að byrja að undirbúa með tveggja til þriggja daga fyrirvara. Byrjið á því að segja þeim hvað spítali sé og gott getur verið að lesa fyrir þau bækur sem segja frá börnum sem hafa farið á sjúkrahús. Það sama gildir fyrir þennan aldur, að æskilegt er að bjóða þeim að taka með sér dót á sjúkrahúsið.

Hægt er að byrja að undirbúa barn á skólaaldri einni til tveimur vikum fyrir heimsókn eða innlögn á sjúkrahús. Mælt er með að sjúkrahúsinu sé lýst fyrir þeim, hvað standi til að gera og hvers vegna. Fyrir börn á þessum aldri hentar líka vel að lesa bækur um börn sem fara á sjúkrahús.

Innskrift og fræðsluviðtöl


Undirbúningur aðgerðarinnar fer oftast fram á göngudeild Barnaspítala Hringsins deild 20E á jarðhæð. Við komuna tekur hjúkrunarfræðingur hjartateymisins á móti ykkur. Hann fræðir ykkur um aðgerðina og útskýrir fyrir hvaða undirbúningsrannsóknir verða gerðar.

Tekin er lungnamynd og hjartalínurit af barninu, hæð, þyngd og lífsmörk mæld. Þá er tekin blóðprufa og blóðflokkagreining er gerð. Barnið fer í læknisskoðun, rætt er við skurðlækninn sem framkvæmir aðgerðina, hjartasérfræðing barnsins og svæfingarlækni til að undirbúa aðgerðina.

Þessi undirbúningur tekur að jafnaði heilan dag. Þegar undirbúningsrannsóknum og fræðsluviðtölunum er lokið fylgir hjúkrunarfræðingur ykkur á gjörgæsludeildina og á barnaskurðdeildina þar sem ykkur er sýnd aðstaðan. Ef barnið kemur heiman að frá sér, mætir það á barnaskurðdeildina ásamt foreldrum sínum á sunnudagskvöldinu fyrir aðgerðardaginn.

Undirbúningur fyrir aðgerð og svæfingu


Kvöldið fyrir aðgerðina mætið þið með barnið á deild 22D. Gott er að vera komin á deildina rétt eftir kvöldmatinn heima eða um tveimur tímum fyrir svefntíma barnsins. Þegar barnið er búið að skoða sig aðeins um er því fljótlega gefið hægðalosandi lyf í endaþarm. Síðan fer barnið í bað og sótthreinsandi sápa notuð. Fætur og nafli eru hreinsuð sérstaklega vel. Þið foreldrar aðstoðið við baðið og við að klæða barnið í föt frá spítalanum. Ykkur er síðan kennt að nota klórhexidínspritt til sótthreinsunar á höndum. Áður en barnið sofnar eru mæld lífsmörk; hiti, blóðþrýstingur, púls og súrefnismettun.

Barnið þarf að vera fastandi frá miðnætti, nema svæfingarlæknir hafi ákveðið annað.

Að morgni aðgerðardags verðið þið vakin klukkan 6:30. Barnið er vigtað, fer aftur í bað með sótthreinsandi sápu. Þegar líður að aðgerð, fylgir hjúkrunarfræðingur ykkur á móttökuherbergi á skurðstofugangi, þar sem barnið fær lyfjaforgjöf. Þegar lyfjaforgjöfin er farin að virka og barnið farið að gleyma sér, kveðjið þið barnið og komið aftur á barnaskurðdeild.

Skurðaðgerðin


Aðgerðin og allt í kringum hana tekur að jafnaði um 4 til 5 tíma. Strax að henni lokinni ræðir skurðlæknirinn við foreldra barnsins og greinir ykkur frá hvernig aðgerðin gekk.

Mikilvægt er að starfsfólk barnaskurðdeildar viti hvar þið dveljið meðan á aðgerð stendur, svo hægt sé að ná í ykkur þegar henni er lokið.

Hringt er frá gjörgæslu þegar barnið er búið í aðgerðinni og verður ykkur þá fylgt þangað. Liðið getur um klukkustund þangað til ykkur er leyft að vera hjá barninu. Það vegna þess að það tekur tíma að koma barninu fyrir á gjörgæslunni og tengja öll eftirlitstæki og dælur.

Gjörgæslan


Að aðgerð lokinni fer barnið á gjörgæsludeild og mun dvelja þar í einn til tvo sólarhringa. Á gjörgæslu er barnið undir stöðugu eftirliti meðan það jafnar sig eftir aðgerðina og foreldrar barnsins geta verið hjá því meðan það dvelur þar. Á gjörgæsludeildinni er sérstakt herbergi sem ætlað er aðstandendum. Þar er þeim velkomið að setjast niður, hvíla sig og fá sér kaffisopa. Þið munuð hinsvegar hafa svefnaðstöðu í herbergi barnsins á barnaskurðdeild.

Eftirmeðferð á deild


Þegar barnið er útskrifað af gjörgæsludeild kemur hjúkrunarfræðingur frá barnaspitalanum og fylgir ykkur aftur yfir á deildina. Fyrsta sólarhringinn a.m.k.er barnið áfram tengt við tæki til að fylgjast með hjartslætti, öndun og súrefnisþörf. Barnið er áfram með morfíndreypi til verkjastillingar fyrstu sólarhringana eftir aðgerðina.  Að jafnaði er reynt að taka dreypið niður á þriðja eða fjórða degi eftir aðgerðina. Barnið fær einnig Parasetamól til verkjastillingar ásamt morfíndreypinu og eftir að dreypið er tekið niður.

Vökvajafnvægi


Mikilvægt er að fylgjast með vökvajafnvægi barnsins fyrstu dagana eftir aðgerð.  Barnið er því vigtað daglega og nauðsynlegt er að skrá niður allan þann vökva sem það drekkur og mæla þvagútskilnað.
Á meðan barnið getur ekki drukkið þann vökva, sem það þarf á sólarhring, fær það vökva í æð. Barnið má borða og drekka að eigin vild.

Hreyfing og öndun


Mikilvægt er að barnið fari á fætur eins fljótt og hægt er eftir aðgerðina.  Sjúkraþjálfari aðstoðar við það og kennir barninu einnigað gera öndunaræfingar til að koma í veg fyrir að slím safnist í lungunum.

Útskrift


Flest börn eru tilbúin til að útskrifast á 5. eða 6. degi eftir aðgerð. Eftirlit eftir aðgerð fer síðan fram á göngudeild oft á mánudegi eða þriðjudegi í vikunni eftir aðgerð. Þá eru saumar teknir úr drengötum, gerð hjartaómun og e.t.v.tekin röntgenmynd af lungum.

Umönnun eftir aðgerð