Skip to main content

Um hjartaaðgerðir á börnum á LSH

Aðgerð á Íslandi

Árið 1990 var í fyrsta sinn framkvæmd hjartaskurðaðgerð á barni á Íslandi. Var sá kostur valinn þar sem læknar Barnaspítala Hringsins töldu öruggara að framkvæma aðgerðina hér á landi vegna þess að flutningurinn milli landa væri talinn of áhættusamur fyrir barnið. Þessi tímamótaaðgerð gekk mjög vel og náði sjúklingurinn fullri heilsu.

Í framhaldi af þessu fjölgaði aðgerðum hérlendis á næstu árum og árið 1994 voru aðgerðirnar sjö.

Á árunum 1990 – 2000 gengust samtals 75 börn undir 79 hjartaskurðaðgerðir hér á landi, 71 barn gekkst undir eina aðgerð og fjögur börn undir tvær aðgerðir.

Tegundir hjartagalla

Hjartagallar eru margvíslegir en þær tegundir hjartagalla sem gert hefur verið við hérlendis eru tilgreindar í töflu I.

Flest barnanna voru með op á milli gátta, alls 30 börn; 8 drengir og 21 stúlka, en op á milli gátta er mun algengara hjá stúlkum en drengjum. Þau gengust öll undir opnar aðgerðir og hefur þeim öllum farnast vel. Ekkert dauðsfall var í þessum hópi sjúklinga.

Hjá öllum sjúklingunum var opinu lokað með bót sem var fengin úr gollurshúsi þeirra sjálfra. Þrjú börn voru með ákveðið afbrigði þessa galla. Gekkst eitt þeirra undir annars konar aðgerð til viðbótar við ígræðslu bótar þar sem tenging meginbláæðar við hjartagátt var flutt til.

Dvöl á gjörgæslu var einn til tveir sólarhringar og legutími á sjúkrahúsinu að aðgerðardegi meðtöldum var frá 5 dögum upp í 2 vikur (meðaltal 1 vika).