Til Keflavíkur
Ef barnið kemur beint af Barnaspítala Hringsins er það yfirleitt flutt í sjúkrabíl. Nýfædd börn eru oft í hitakassa, sem síðan er komið fyrir í flugvélinni.
Aðstandendur fara ekki með í sjúkrabílnum heldur alltaf á eigin vegum.
Ef barnið kemur heiman frá sér koma aðstandendur barninu sjálfir til Keflavíkur.
Flugið
Hvar sitjum við?
Ef líkur eru á að barnið þurfi súrefnisgjöf á leiðinni er ferðast á viðskiptafarrými enda betra að hafa gott svigrúm. Þá kemur læknir með.
Athugið að þótt farið sé á viðskiptafarrými út, gæti verið flogið á almennu farrými heim.
Barn yngra en 2 ára:
Ef ferðast þarf á viðskiptafarrými (sjá hér að ofan) fær barnið eigið sæti. Hægt er að hafa bílstól meðferðis og láta hann vera í sætinu en halda þarf á barninu í flugtaki og lendingu.
Ef flogið er á almennu farrými, ferðast barnið eins og önnur ungabörn og hefur því ekki eigið sæti.
Barn 2 ára eða eldra:
Barnið ferðast í eigin sæti.
Hvað eigum við að hafa með í flugið?
Mikilvægt er að muna eftir:
- Lyfjum
- Barnamat
Gott getur verið að taka með:
Afþreyingu fyrir barnið, t.d. bækur, leikföng, tónlist, tölvu
Lítið teppi eða sæng
Ef barnið fer með sjúkrabíl á spítalann taka sjúkraflutningamenn á móti því á flugvellinum.
Lundur
Á Kastrupflugvelli tekur leigubíll á móti aðstandendum. Þeir fara með honum til Lundar. Ef barnið hefur komið í hitakassa eða með sjúkrabíl á flugvöllinn er langlíklegast að barnið fari með sjúkrabíl til Lundar. Annars fara allir saman í leigubílnum.
Boston
Ef barnið fer í sjúkrabíl af flugvellinum fara foreldrar með honum líka – a.m.k. annað. Annars sjá aðstandendur sjálfir um að koma sér og barninu á hótel, eða á spítalann ef við á.
Þá er best að taka ‘formlegan’ leigubíl. Í Boston eru þeir staðsettir við hornið á flugstöðvarbyggingunni ca. 100 m. til vinstri þegar komið er út. Ekki taka bíl hjá mönnum sem hóa í þig framan við bygginguna.