Skip to main content

Hjartaþræðingar

Hjartaþræðingar eru notaðar til ýmissa rannsókna á hjarta, svo og minniháttar aðgerða.  Í þræðingu er slanga þrædd inn í hjarta eða kransæðar. Oftast er slangan þrædd gegnum nára, en stundum olnbogabót, eða háls.

Með þræðingu er hægt að gera ýmsar rannsóknir inni í hjartanu og æðum, taka myndir o.fl.  Minni aðgerðir og lagfæringar er einnig hægt að gera með þræðingu og eykst umfang þeirra sífellt með aukinni tækni.  Jafnvel er farið að græða lungnaslagæðalokur í fullorðna með hjartaþræðingu.  Inngripið er töluvert mikið  minna en yrði með opinni skurðaðgerð, áhættan minni og sjúklingar  eru fljótari að jafna sig.

Hjartaþræðing getur tekið talsverðan tíma.  Hún er annað hvort gerð í svæfingu eða að barnið fær róandi lyf. Barnið þarf þó alltaf að vera daglangt á spítala og einstaka sinnum þarf barnið að vera yfir nótt. Þræðingin sjálf tekur oftast um 1-3 klst. Foreldrar geta ekki verið viðstaddir hjartaþræðingu.

Við hvetjum foreldra til að spyrja starfsfólk sjúkrahússins hvaða spurninga sem er. Það er markmið starfsfólks spítalans að rannsóknir sem gerðar eru á börnum gangi sem best fyrir stig og valdi þeim sem minnstu álagi, sem og að fá eins nákvæmar niðurstöður úr rannsóknunum og hægt er. Því er góð samvinna milli foreldra og þeirra sem framkvæma rannsóknirnar mjög mikilvæg.

Neðangreindar upplýsingar eiga sérstaklega við um hjartaþræðingu á Íslandi, en eiga einnig að miklu leyti einnig við þræðingu í Boston.

Undirbúningur

Undirbúningur barns fyrir hjartaþræðingu fer talsvert eftir aldri barnsins sem á í hlut.  Börnum á aldrinum 2 til 5 ára er hægt að segja daginn áður að þau séu að fara á spítalann á morgun til að láta skoða hjartað. Gott er að bjóða þeim að velja hvað þau vilji taka með sér, til dæmis uppáhalds mynddisk eða tónlist, bangsann sinn eða önnur uppáhaldsleikföng.

Börn á forskólaaldri (5-6 ára) er hægt að byrja að undirbúa með tveggja til þriggja daga fyrirvara. Byrja á því að segja þeim frá hvað spítali er og gott getur verið að lesa fyrir þau bækur sem segja frá börnum sem hafa farið á sjúkrahús.

Hægt er að byrja að undirbúa barn á skólaaldri einni til tveimur vikum fyrir heimsókn / innlögn á sjúkrahús. Mælt er með að útskýrt sé fyrir þeim hvað sjúkrahús er, hvað standi til að gera og hvers vegna. Fyrir þennan aldur hentar líka vel að lesa bækur um börn sem fara á sjúkrahús.

Á spítalann

Foreldrar þurfa að koma með barnið í undirbúningsrannsóknir 1-2 dögum fyrir þræðinguna. Þá eru teknar blóðprufur, hjartalínurit og röntgenmynd af hjarta og lungum og ef með þarf er gerð hjartaómskoðun.

Daginn sem barnið á að fara í þræðingu þarf að koma með barnið fastandi á tilsettum tíma sem ykkur verður gefinn upp. Þið mætið á dagdeildina / barnaskurðdeildina og barnið fer í fatnað frá spítalanum. Síðan er ykkur fylgt í undirbúningsherbergi fyrir svæfingar.  Gott er að taka með eitthvað kunnuglegt að heiman eins og leikfang eða teppi.

Eftir þræðinguna

Vel er fylgst með barninu fyrstu klukkustundirnar eftir þræðinguna. Eftir þræðinguna er barnið með þrýstingsumbúðir yfir stungustaðnum í náranum til að hindra blæðingu frá stungustað. Lífsmörk eru könnuð reglulega og fylgst með stungustaðnum og blóðflæðinu í fætinum sem stungið var í. Nánar tiltekið með púls, hitastigi og húðlit.

Barnið þarf að vera á legu í 4-6 klst. eftir þræðinguna og þarf síðan að hafa hægt um sig næsta sólarhringinn. Oftast fær barnið að fara heim samdægurs, þó þarf það stundum að vera yfir nótt ef um frekara inngrip hefur verið að ræða í þræðingunni (blásning, víkkun). Þegar barnið er vel vaknað fær það að drekka tæran vökva og ef það gengur vel fær það að borða fljótlega eftir það.

Heimferð

Forðast ber að ganga langa leið og allan hamagang í sólarhring eftir þræðinguna. Börn geta fengið vægan hita og flensueinkenni að kvöldi rannsóknardagsins og mælum við með að þeim sé gefið Parasetamól. Barnið má ekki fara í bað eða sund fyrstu 2 til 3 dagana eftir þræðinguna meðan stungustaðurinn er að gróa, en barnið getur farið í sturtu.