Skip to main content

Lundur – spítalinn og borgin

Lundur er borg í Svíþjóð, ekki mjög stór en þar búa um 82.000 manns. Lundur er mikið háskólasamfélag en Háskólinn í Lundi er einn stærsti háskólinn á Norðurlöndum.

Háskólasjúkrahúsið í Lundi (Skåne University Hospital) er stórt og virt sjúkrahús, bæði með útibú í Malmö og Lundi, en hjartadeild barna er í Lundi.  Sjúkrahúsið er með þeim allra fremstu á Norðurlöndum í hjartaskurðlækningum.  Árangur þess í hjartaaðgerðum barna er framúrskarandi á heimsvísu, rétt eins og sjúkrahússins í Boston.
Smellið hér til að heimsækja vef barnahjartaskurðdeildarinnar.
Þar sem Lundur liggur tiltölulega nálægt Kaupmannahöfn þá er flogið þangað og þaðan þegar börn fara til og frá Lundi.  Síðan er ekið með bíl, ýmist sjúkrabíl eða leigubíl til Lundar og tekur aksturinn um klukkutíma.

Þjónusta og afþreying á spítalanum

Á Skånes Universitetssjukhus er boðið upp á mjög fjölbreytta þjónustu og aðstöðu fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra.  Má þar nefna matstofur, leikherbergi, þvottaaðstöðu, internetaðstöðu, sálfræðiaðstoð, trúarstuðning og hraðbanka.

Smellið hér til að fá upplýsingar um aðstöðu á spítalanum.

Þjónusta og afþreying í Lundi.

Þrátt fyrir erfiðar aðstæður er öllum hollt að fara aðeins út og hlaða batteríin. Ef þið hafið fengið ættingja eða vin með ykkur til Lundar, þá gæti verið gott að fá þann aðila til að gæta barnsins á meðan þið skreppið aðeins frá.

Foreldrar hafa möguleika á að gista á Ronald McDonald fjölskylduhúsinu sem er í um 3-5 mín. göngufæri frá spítalanum. Þar eru góð sameiginleg rými, eldhúsaðstaða og aðgangur að ísskáp, þvottaaðstaða og hægt að fá lánaðar kerrur og hjól. Smellið hér til að komast á heimasíðu Ronald McDonald hússins.

Ef ekki fæst pláss á Ronald McDonald húsinu fá fjölskyldur pláss á sjúkrahótelinu við sjúkrahúsið.

Á Deild 67 er gert ráð fyrir einum aðstandanda allan sólarhringinn hjá barninu.

Á BIVA er barnið undir stöðugu eftirliti starfsfólks og mælum við því með að foreldrar nýti þann tíma vel til að hvílast og hlaða batteríin.

M.a. er hægt að rölta um bæinn, skoða verslanir og veitingahús og einnig er stutt að fara með lest til Malmö og Köben.