Prestsþjónusta
Á fyrstu hæð Barnaspítalans er kapella. Hún er ávallt opin og er fjölskyldum barna sem dvelja á spítalanum velkomið að eiga þar kyrrðarstund.
Prestur er starfandi við Barnaspítala Hringsins fyrir fjölskyldur sem óska eftir þjónustu hans. Hægt er að ná sambandi við hann hvenær sem er á dagvinnutíma en á öðrum tímum má kalla í vakthafandi sjúkrahúsprest eða djákna.
Félagsráðgjöf
Félagsráðgjafar starfa við Barnaspítalann. Sjúklingum og fjölskyldum þeirra stendur til boða fræðsla og ráðgjöf um félagsleg réttindi og tryggingamál. Félagsráðgjafar bjóða upp á einstaklings-, fjölskyldu- og hjónaviðtöl til stuðnings og aðstoðar í erfiðleikum og sorg.
Foreldrar og aðstandendur barna geta leitað beint til félagsráðgjafa eða notið milligöngu starfsfólks.
Sálfræðileg ráðgjöf
Á Landspítalanum er starfandi sálfræðingur sem foreldrum í þessari stöðu stendur til boða að tala við og um að gera að nýta sér þjónustu þeirra. Best er að tala við hjartalækni barnsins, eða við hjúkrunarfræðing Hjartateymis Landspítala Háskólasjúkrahúss, sem hafa milligöngu um það.
Næringarráðgjöf
Við Barnaspítalann starfa næringarráðgjafar. Þeir meta næringarþörf og ákveða næringarmeðferð í samvinnu við lækna, hjúkrunarfræðinga og aðra sem koma að meðferðinni. Næringarráðgjafar geta verið barninu og aðstandendum þess innan handar við val á hentugum mat þegar barn þarfnast sérfæðis eða hefur séróskir. Næringarráðgjafar sinna börnum og unglingum á öllum deildum spítalans, einnig þeim börnum sem koma á göngudeild.
Þagnarskylda
Athygli er vakin á því að starfsfólk og nemendur sjúkrahússins eru bundnir þagnarskyldu og farið er með málefni sjúklinga af fyllsta trúnaði.
Landspítali – háskólasjúkrahús er kennsluspítali og nemendur í heilbrigðisfræðum og tengdum greinum stunda hluta af námi sínu á spítalanum. Nemendur fylgjast með og taka þátt í daglegri meðferð sjúklinga og eru alltaf á ábyrgð og undir handleiðslu leiðbeinenda sinna.