Kostnaður vegna aðgerðar í erlendis
Sjúkrakostnaður og fargjöld
Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) greiða allan kostnað af sjúkrahúsdvöl og af flutningi barns milli landa. SÍ greiðir einnig flugfargjald foreldra/fylgdarmanna. Ekki þarf að sækja sérstaklega um þessar greiðslur og þurfa aðstandendur ekki að hugsa um það.
Dagpeningar
Uppihaldskostnaður er greiddur samkvæmt reglugerð um ferðastyrki vegna brýnnar læknismeðferðar erlendis (nr. 827/2002). Dagpeningum er m.a. ætlað að koma til móts við kostnað vegna gistingar, fæðis, leigubíla- og símanotkunar.
Foreldrar fá dagpeninga fyrir það tímabil sem þeir dvelja erlendis í tengslum við aðgerðina. Þurfi barnið að dvelja meira en sex vikur erlendis er hægt að sækja um ferðastyrk vegna skipta á fylgdarmanni á fjögurra vikna fresti. Reglan er að annað foreldrið fái fulla dagpeninga, en hitt hálfa og miðast upphæðin við ferðir opinberra starfsmanna.
Hægt er að sækja um dagpeninga fyrir barnið sjálft fyrir þá daga sem barnið dvelur utan sjúkrahúss. Það er þá eingöngu ef dvölin er í tengslum við aðgerðina. Þannig t.d. gildir það ekki ef foreldrar kjósa sjálfir að fara seinna heim til Íslands en hægt væri eða þá að fara út fyrr.
Almennt eru dagpeningar greiddir út eftir að heim er komið og sótt er um þá á þessu eyðublaði.
Smellið hér til að sjá reglur Sjúkratrygginga Íslands varðandi læknisaðstoð erlendis.
Önnur fjárhagsaðstoð (heima og/eða erlendis)
Styrktarsjóður Neistans, foreldrafélags hjartveikra barna, veitir styrki vegna kostnaðar í tengslum við hjartagallann, svo sem vegna ferðalaga í kringum aðgerðir.
Yfirleitt er sótt um styrk að aðgerð lokinni.
Smellið hér til að sækja umsóknareyðublað Styrktarsjóðs Neistans.
Einnig er hægt að hafa samband með tölvupósti á neistinn@neistinn.is.
Skrifstofa Neistans er í Borgartúni 28a, 108 Reykjavík. Opið: á virkum dögum eftir samkomulagi. Sími 552-5744 og 899-1823.
Umhyggja, félag til stuðnings langveikum börnum, getur líka veitt fjölskyldum langveikra barna styrki.
Skrifstofa umhyggju er að Háleitisbraut 13, 108 Reykjavík. Síminn er 552 4242.
Nánar um reglur vegna styrkveitinga hér.
Einnig er hægt að hafa samband við umhyggja@umhyggja.is.
Umönnunargreiðslur og umönnunarkort.
Hægt er að sækja um umönnunargreiðslur og umönnunarkort hjá Tryggingastofnun Ríkisins. Umönnunargreiðslurnar koma til móts við kostnað, s.s. vinnutap vegna veikinda. Umönnunarkortin lækka kostnað við læknisheimsóknir og lyf.
Þetta tvennt er vel hægt að bíða með þar til heim er komið.
Allar upplýsingar (og umsóknareyðublað) má finna hér.
Sérfæði og næringarefni
Hægt er að sækja um styrk til Sjúkratrygginga Íslands til kaupa á sérfæði og næringarefnum (sjá nánar hér).
Sjúkrasjóðir
Sjúkrasjóðir stéttarfélaganna geta oft aðstoðað með kostnað og greiða margir þeirra styrk vegna fjarveru frá vinnu vegna veikinda barna.
Fræðslunámskeið
Sjúkratryggingum Íslands er heimilt að endurgreiða kostnað við ferðir foreldra eða nánustu aðstandenda til að sækja fræðslunámskeið sem stofnunin viðurkennir. Endurgreitt er samkvæmt reglum um langar ferðir.