Skip to main content

Lundur – aðgerðin – spítalinn

Háskólasjúkrahúsið í Lundi hefur yfir sér heimilislegt yfirbragð og mikið lagt upp úr því að sjúklingum og aðstandendum líði vel.  Við Íslendingarnir höfum fengið skipaðan sérstakan tengilið fyrir okkur, sem er íslenskur hjúkrunarfræðingur, Álfhildur, sími: (+46) 703 84 55 73

Þeir sem vilja kynna sér barnaspítalann frekar en gert er hér á síðunni er bent á síður spítalans sjálfs.  Þær eru mjög aðgengilegar og góðar fyrir þá sem kunna jafnvel bara lítilræði í “skandinavísku”.  Sjá hér um barnahjartadeildina.

Innritunin á spítalann

Innritunardagurinn fer í viðtöl, læknisskoðanir og rannsóknir ýmsar til undirbúnings aðgerðinni.
Þá eru teknar blóðprufur, hjartalínurit og röntgenmyndir til undirbúnings. Foreldrar fá fund með skurðlækninum sem útskýrir aðgerðina sem á að gera og helstu upplýsingar sem þarf að vita fyrir aðgerð. Hægt er að fá lánaða brjóstapumpu á deildinni.

Aðgerðardagurinn

Þetta er stóri dagurinn. Foreldrar mæta með barnið á svæfingarstofu og kveðja. Misjafnt er hvað aðgerðin tekur langan tíma en á meðan aðgerðinni stendur getur verið gott að dreifa huganum, nýta tímann til að hvíla sig, og borða. Skurðlæknirinn hringir svo þegar aðgerðinni er lokið.

Gjörgæslan – BIVA

Hingað fara börnin fyrst eftir aðgerð og dvelja í fáeina daga undir vökulum augum sérhæfðra hjúkrunarfræðinga, þar til ástand þeirra verður stöðugt og þau flytjast á Legudeildina. Oft fylgja miklar tilfinningar því að sjá barnið sitt í því ástandi sem það verður í á BIVA en það verður tengt í hin ýmsu tæki og marga leggi og leiðslur. Þar má t.d. nefna hjartasírita, öndunarvél, æðaleggi, þvagleggi og verður djúpt sofandi. Ekki er gert ráð fyrir að foreldrar dvelji með barninu á BIVA en að sjálfsögðu mega þeir koma og vera hjá barninu eins og þeir vilja. Einnig er hægt að biðja hjúkrunarfræðingana um að hafa samband ef einhverjar breytingar verða á ástandi barnsins eða til að veita upplýsingar um hvernig barninu líður. Einnig er hægt að fá símanúmerið hjá þeim á deildinni til að geta hringt og athugað stöðuna. Mikilvægt er að foreldrar nýti tímann vel þegar barnið er á BIVA til að hvílast vel því þegar barnið fer á almenna deild er gert ráð fyrir sólahringsviðveru annars foreldris.

Legudeildin – Avdelning 67

Þegar almennt ástand barnsins er stöðugt flyst það á legudeildina/barnahjartadeildina (Avdelning 67).
Umönnun fer fram sem teymisvinna.  Þar dvelur barnið þar til að það er útskrifað. Þar er gert ráð fyrir stöðugri viðveru annars foreldris og gott er ef foreldrar hafa tök á, að skiptast á að sofa hjá barninu til að báðir foreldrarnir hvílist sem mest. Barnið er tengt við hjartarafsjá og er verkjastillt eftir þörfum. Hægt er að fá leiðbeiningar um næringu hjá hjúkrunarfræðingum deildarinnar en oft er að ýmsu að huga varðandi næringu hjartabarna.
Hægt er að kaupa morgunmat á deildinni, en barnið fær mat á deildinni á meðan það dvelur þar. Gott er að hafa bækur, leikföng, spjaldtölvur eða annað til að dunda við þegar barnið fer að hressast.

Útskrift – heim á ný

Útskriftin er gleðistund. En fyrst þarf ítarlega læknisskoðun.  Fyrir útskrift, oftast á sjálfan útskriftardaginn, er viðtal við lækni þar sem gengið er frá útskriftarpappírum og öðrum praktískum atriðum, oft gerðar fleiri rannsóknir og fræðsla um umönnun eftir aðgerð. Þá er einnig útskriftarviðtal við hjúkrunarfræðing. Oft er veitt leyfi frá spítalanum fyrst um sinn til að ganga úr skugga um að allt gangi vel áður en flogið er heim á ný. Til að ganga frá heimferð er haft samband við íslenskan tengilið og/eða Icelandair sem gengur frá fluginu heim. Þegar heim er komið er misjafnt hvað tekur við, oftast vill hjartalæknir barnsins hitta barnið eftir aðgerð og er allur gangur á því. Mikilvægt er að vera í sambandi við viðkomandi hjartalækni þegar heim er komið. Fyrstu skoðanir eru oftast frekar þéttar en svo lengist tíminn á milli skoðana eftir því sem lengra líður frá aðgerð.