Hvað á ég eiginlega að gera?
Ekki ásaka ykkur sjálf. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir að orsökin er langoftast óþekkt og sannarlega engum að kenna.
Varist upplýsingar fengnar á netinu. Á veraldarvefnum má finna mikið af misvísandi og villandi upplýsingum sem geta gefið ranga mynd af raunveruleikanum og getur jafnvel ýtt enn frekar undir hræðslu og ótta. Markmið heimasíðu Neistans er að vinna í og gefa út fræðsluefni sem finna má hérna á heimasíðunni en ef þörf er á fleiri upplýsingum má finna hér nokkrar vefsíður sem miðla aðgengilegum og áreiðanlegum upplýsingum sem einnig hafa gott fræðslugildi:
Hvað hentar ykkur? Veltið aðeins fyrir ykkur hvað þið haldið að muni gagnast ykkur við að takast á við þetta verkefni. Sumum hentar að tala um hlutina meðan aðrir vilja halda þeim fyrir sjálfa sig. Þá vilja sumir fræðast um gallann og lesa um hann, meðan aðrir kjósa að hugsa ekki of mikið um hann. Einhverjum hefur fundist gott að skrifa um það sem þeir eru að ganga í gegnum, jafnvel á netið, aðrir sækja í trúna og svo mætti áfram telja. Mikilvægt er að finna sínar eigin aðlögunarleiðir og afla sér upplýsinga eftir þörfum. Einnig er mikilvægt að viðurkenna tilfinningar sínar og ekki skammast sín fyrir þær hugsanir sem geta komið upp. Til eru ýmsar leiðir fyrir fólk til að fá aðstoð við að vinna úr því sem það er að ganga í gegnum. Á Barnaspítalanum eru starfandi bæði félagsráðgjafi og sálfræðingur sem foreldrum stendur til boða að tala við og getur það verið hjálplegt að nýta sér þjónustu þeirra. Hægt er að komast í samband við þá með milligöngu hjartalæknis barnsins eða hjúkrunarfræðings á vökudeild/barnadeild ef barnið dvelur þar.
Reynsla annarra
Þó aðstæður fólks sem þarf að fara með börnin sín í hjartaaðgerð séu aldrei alveg sambærilegar, getur verið mikill stuðningur fólginn í því að hitta fólk sem staðið hefur í svipuðum sporum. Það getur miðlað af reynslu sinni af tilfinningunum sem fylgja þessari stöðu en einnig af hagnýtum hlutum sem gott er að vita t.d. áður en haldið er til Lundar eða Boston en einnig þótt aðgerð verði á Íslandi.
Margir foreldrar hjartabarna eru sannarlega reiðubúnir að aðstoða, spjalla og deila reynslu sinni. Við hvetjum því alla, ekki síst þá sem eru á leiðinni til Lundar eða Boston, til að setja sig í samband við aðra foreldra.
Á facebook hafa orðið til foreldrahópar, bæði blandaður og mömmuhópur. Hóparnir eru lokaðir og fyllsta trúnaðar heitið en aðeins foreldrum er hleypt inn í þessa hópa. Smellið á eftirfarandi hlekki til að komast í viðkomandi hópa:
Staða okkar á Íslandi
Þó það sé að sjálfsögðu ekki auðvelt að takast á við það að barnið manns sé með hjartagalla má benda á það að staða okkar á Íslandi er mjög góð miðað við önnur lönd.
Börn sem fæðast með alvarlega hjartagalla hér og þurfa að gangast undir skurðaðgerð erlendis, njóta þjónustu einhverra allra færustu hjartalækna heims á barnaspítölunum í Lundi og Boston og það er ómetanlegt að geta farið út í slaginn með þá vitneskju í farteskinu.