Neistinn, styrktarfélag hjartveikra barna var stofnað þann 9. maí 1995. Félagið er opið öllum þeim sem áhuga hafa á velferð hjartveikra barna. Í dag eru um 290 fjölskyldur í félaginu.
Félagsfundir eru haldnir yfir vetrarmánuðina, reynt er að hafa ýmsa fyrirlesara á þessum fundum til að ræða málefni hjartveikra barna. Einnig finnst félagsmönnum gott að koma saman og ræða málefni barnanna og miðla af reynslu sinni til annarra foreldra sem er ómetanlegur stuðningur við þá foreldra sem eiga börn sem nýlega hafa greinst með hjartagalla. Allir þeir sem áhuga hafa á málefnum hjartveikra barna eru hvattir til að koma á félagsfundi Neistans.
Starf Neistans á undanförnum árum hefur verið hjartveikum börnum ómetanlegt. Þrátt fyrir það er ætíð svigrúm til að gera enn betur. Ný stjórn félagsins hefur með þetta í huga ákveðið að leggja verulega aukna áherslu á það hlutverk félagsins að vera uppspretta fræðslu- og kynningarefnis auk þess sem beinn stuðningur og aðstoð við hjartveik börn og fjölskyldur þeirra verður aukinn. Til viðbótar við þessa áherslubreytingu mun félagið áfram leggja áherslu á félagsstarfið með hefðbundnum uppákomum svo sem sumarferð, jólagleði og skemmtidögum. Samhliða starfinu þarf að afla félaginu tekna en grundvöllurinn fyrir öllu starfi félagsins er að það hafi styrkan fjárhagslegan bakgrunn.
Félagið er líknarfélag sem reiðir sig á þátttöku sjálboðaliða. Þessum aðilum til aðstoðar njótum við einnig krafta og stuðnings starfsmanna Landssamtaka Hjartaheilla og SÍBS. Það er ljóst að í félagsstarfi sem þessu er árangurinn af starfseminni háður vinnuframlagi þeirra einstaklinga sem hug hafa á þátttöku. Það getur hins vegar dregið úr eldmóði aðila ef umfang verkefnisins er það mikið og þátttakendur það fáir að verkefnið virðist óyfirstíganlegt. Það er því mjög mikilvægt að finna leið til þess að gera hvert verkefni viðráðanlegt og í samræmi við þá starfskrafta og þann tíma sem í boði er.