Skip to main content

Á allra vörum styður hjartveik börn

By júlí 28, 2011Fréttir

Á allra vörum
Góðgerðarfélagið „Á allra vörum“ leggur nú af stað í sína fjórðu landssöfnun. Um er að ræða kynningar- og fjáröflunarátak þar sem þjóðin sameinast og lætur gott af sér leiða. Félagið velur árlega eitt viðráðanlegt verkefni og hefur m.a. safnað fyrir SKB, Ljósið og Krabbameinsfélag Íslands.

Í ár beinir „Á allra vörum“ kastljósinu að Neistanum og málefnum hjartveikra barna, en um 70 börn greinast með hjartagalla árlega. Sérstakt hjartatæki fyrir börn á Barnaspítala Hringsins er nú komið til ára sinna og er veruleg vöntun á endurnýjun. Mikið álag er á tækið þar sem það er eitt sinnar tegundar á landinu og notað oft á dag til að greina tilfelli í fóstrum svo og nývoðungum. Það er alveg ljóst að með endurnýjuðu tæki má bæði spara peninga og bjarga mannslífum.

„Það er með gleði og bjartsýni í hjarta sem við leggjum af stað í þessa fjórðu ferð okkar því málefnið er bæði þarft og viðráðanlegt. Tilhugsunin um að svona tæki bjargi litlum mannslífum og hjörtum barnanna okkar, gerir það einnig auðveldara og vonumst við stöllur til þess að þjóðin taki okkur jafn vel og undanfarin ár“
– segir Gróa Ásgeirsdóttir ein forsvarskvenna félagsins.

Átakið hefst 12. ágúst og þá með sölu á hinum landsþekktu „Á allra vörum“ varaglossum frá Dior. Tveir nýir litir verða í boði og fást þeir hjá viðurkenndum Dior snyrtivöruverslunum um land allt. Einnig verður hægt að panta gloss hjá Neistanum, Síðumúla 6.

Sjónvarpsþáttur og konukvöld í Kringlunni

„Á allra vörum“ konukvöld er fyrirhugað í Kringlunni fimmtudaginn 18. ágúst þar sem kennir ýmissa grasa, m.a. frábær tilboð í verslunum, ýmsar kynningar auk þess sem landsþekktir skemmtikraftar láta sjá sig.

Átakinu lýkur með landssöfnun 26. ágúst í beinni útsendingu á Skjá Einum. Maríanna Friðjónsdóttir stýrir henni ásamt fjölda sjálfboðaliða úr íslenska kvikmynda- og sjónvarpsgeiranum, sem tekið hafa saman höndum umliðin ár til að setja ómetanlegan og veglegan lokahnykk á átakið.