Skip to main content

Höfundar Kransæðabókarinnar afhentu Neistanum 500 þúsund króna styrk

Höfundar Kransæðabókarinnar hafa veitt Neistanum, styrktarfélagi hjartveikra barna, 500 þúsund króna fjárstyrk. Fríða Björk Arnardóttir tók við styrknum 21. september 2017 fyrir hönd Neistans úr höndum prófessoranna Guðmundar Þorgeirssonar, ritstjóra bókarinnar, og Tómasar Guðbjartssonar.

Hugmyndina að styrkveitingunni átti Guðbjörg Ingvarsdóttir gullsmiður og eigandi Aurum en hún ákvað í sumar að gefa kvenhöfundum Kransæðabókarinnar hálsmen með gullhjarta sem hannað var af Siggu Heimis hönnuði. Sem þakklætisvott ákváðu höfundar Kransæðabókarinnar að afhenda Neistanum 500 þúsund króna styrk en Aurum hefur áður stutt veglega við bakið á samtökunum.

Kransæðabókin kom út fyrir tæplega ári síðan og hafa móttökur verið það góðar að prenta varð annað upplag síðastliðinn vetur. Hagnaður af sölu bókarinnar verður nýttur til að styðja við rannsóknir á hjartasjúkdómum og til góðgerðarmála. Kransæðabókin er enn fáanleg í Lyfjaveri við Suðurlandsbraut og Bóksölu stúdenta en einnig er hægt að panta eintak með því að senda tölvupóst á gunnhild@landspitali.is.

Kransæðabókin á Facebook