Skip to main content

Spilakvöld

Og gleðin heldur áfram. Að þessu sinni hittust foreldrar hjartabarna og Taktur á árlegu spilakvöldi. Líkt og í fyrra var það haldið í sal Siglingafélagsins Ýmis, þar var aðstaðan til fyrirmyndar og það er gaman að segja frá því að félagið lánaði okkur salinn endurgjaldslaust, við erum því mjög þakklát. 

Eftir mjög kærkomna upprifjun á reglum félagsvistar hófust leikar. Sumir þátttakendur voru á fleygi ferð um salinn en aðrir gerðu sig heimakomin á borðunum, Það er algjör óþarfi að vera að flækja hlutina með að muna einhver borðanúmer. Þótt það væri spilað af mikilli ákefð og einbeitingu náðu þátttakendur þó að spjalla saman og hlæja. 

Eins og hefð er fyrir var happdrætti og margir veglegir vinningar í boði. Það voru fjölmargir aðilar meira en til í að gefa gjafabréf og flotta hluti, enginn fór tómhentur heim. Við þökkum þeim öllum einnig kærlega fyrir. 

Makar formanns og framkvæmdastjóra tóku það gríðarlega mikilvæga verkefni að sér að telja saman stigin í lokin og kom það í ljós að sigurvegararnir voru þrír. einn karl, Kjartan Birgisson og tvær konur voru jafnar að stigum, þær Anney Birta Jóhannesdóttir og Berglind Sigurðardóttir. Öll fengu þau flotta vinninga fyrir afrekið. Undirritaðri finnst þó að það megi alveg skoða það að bæta við verðlaunaflokki fyrir þann sem afrekar að fá lægstu stigin, mögulega verður það lagt fyrir nefnd. 

Takk kærlega fyrir frábært kvöld, Neistinn og Taktur! Það er mikil tilhlökkun að endurtaka leika á næsta ári. 

Jónína Sigríður Grímsdóttir