Skip to main content

Alþjóðlegi hjartadagurinn 2018

By september 17, 2018Fréttir

Alþjóðlegi hjartadagurinn er haldinn 29. september ár hvert en það er Alþjóðahjartasambandið (World Heart Federation) sem hvetur aðildarfélög sín um allan heim til að halda upp á Hjartadaginn.

Á Íslandi sameinast Hjartavernd, Hjartaheill, Neistinn og Heilaheill.

Í ár er lögð áhersla á að fólk hugsi um sitt eigið hjarta og ástvina sinna, „hjartað mitt og hjartað þitt“.

Félögin hafa haldið upp á daginn með hjartadagshlaupi og göngu um árabil í samvinnu við Kópavogsbæ sem hefur boðið þátttakendum í sund að hlaupi loknu.

Laugardaginn 29. september kl. 10:00 verður hjartadagshlaupið ræst. Boðið er upp á 5 og 10 km vegalengdir og er þátttaka ókeypis. Hlaupið verður ræst frá Kópavogsvelli og liggur hlaupaleiðin um Kársnesið. Skráning í hlaupið fer fram á www.netskraning.is og við stúkuna fyrir hlaup frá klukkan 9 en hlaupið hefst klukkan 10:00. Flögutímataka er í hlaupinu. Notaður verður tímatökubúnaður frá Tímataka.net og verða verðlaun veitt fyrir efstu sæti auk útdráttarverðlauna. Frjálsíþróttadeild Breiðabliks sér um framkvæmd hlaupsins. Þegar úrslit liggja fyrir verður hægt að sjá þau á heimasíðum félaganna, timataka.net og á hlaup.is. Þátttakendum verður boðið í sundlaugar Kópavogs að loknu hlaupi.

Þann 29. september kl. 11:00 hefst hjartadagsgangan í Elliðarárdalnum. Lagt verður af stað við brúnna sem er á milli gömlu rafstöðvarinnar og Toppstöðvarinnar. Göngustjórar eru starfsmenn Hjartaheilla og er þátttaka ókeypis. Genginn verður hringur sem er rétt um 4 km.

Hjartasjúkdómar eru fyrirbyggjanlegir og með því að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl má seinka sjúkdómnum og jafnvel koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll.

Hreyfðu þig! Hreyfing þarf ekki að vera bundin við íþróttir eða líkamsrækt og getur verið margs konar, eins og við heimilisstörf, garðvinnu eða einfaldlega að fara út og leika við börnin. Settu þér raunhæf markmið, ekki byrja á því að klífa fjall eða hlaupa maraþon, þú byggir upp þrek og þol smám saman.

Borðaðu hollt! Takmarkaðu neyslu á unnum matvörum sem oft innihalda mikinn sykur, salt og mettaða fitu. Gerðu holla matinn spennandi fyrir börnin, berðu fram litríkan mat eins og ávexti og grænmeti og láttu þau aðstoða við matargerðina. Leiddu hugann að skammtastærðum, notaðu minni matardiska og leyfðu grænmetinu og ávöxtunum að taka mesta plássið.

Segðu NEI við tóbaki! Hafðu reykingarlaust umhverfi. Fræddu börnin þín um skaðsemi tóbaks til að hjálpa þeim að velja líf án tóbaks. Til eru ýmsar leiðir til að hætta að reykja og stundum þarf að leita til sérfræðings.