Skip to main content

Norrænu sumarbúðirnar 2022

Norðurlandasumarbúðir hjartveikra unglinga voru að þessu sinni haldnar í Stidsholt Sports School í Norður Jótlandi, Danmörku, nánar tiltekið dagana 24.-31. júlí.

Fimm ofurhressir krakkar fóru frá Íslandi og er þátttaka í þeim ómetanleg lífsreynsla fyrir unglingana og dýrmætur tími sem þau varðveita í hjörtum sér um ókomna tíð.

Eins og alltaf var full dagskrá alla daga. Pokahopp, rjómaleikur, skotbolti,ferð á ströndina og á Skagen, verslunarferð, diskókvöld, vatnsstríð, dönsk jól og margt margt fleira.

 

Okkur fararstjórum þykir alltaf jafngaman að upplifa hvað unglingarnir eru fljótir að kynnast og njóta þess að vera saman. Þau skynja strax að þau eiga svo margt sameiginlegt enda öll með svipaða og oft á tíðum þunga lífsreynslu að baki sem aðrir jafnaldrar þeirra eiga erfitt með að skilja til fulls.

Þau tengjast öll á Instagram, snaphat og facebook og halda þannig áfram sambandi eftir að heim er komið.

Sum hafa meira segja ferðast á eigin vegum milli landa til að hittast og viðhalda vináttunni persónulega.

Það var ótrúlega gaman að fá að fara loksins aftur í sumarbúðirnar eftir tveggja ára fjarveru og eru krakkanir strax farnir að hlakka til næsta árs en þá verða sumarbúðirnar haldnar í Finnlandi ❤️

Við viljum þakka sérstaklega heilbrigðisráðuneytinu, Hreyfli  og Ingu Elínu fyrir stuðninginn ❤️