Skip to main content

Vitundarvika um meðfædda hjartagalla

By febrúar 7, 2023Fréttir

Alþjóðleg vitundavika meðfæddra hjartagalla er hafin. Neistinn ásamt Takti taka að sjálfsögðu þátt í henni. Við munum vera enn sýnilegri á samfélagsmiðlum þessa vikuna. Einnig munu glöggir borgarbúar taka eftir einstaklega fallegum auglýsingum í strætóskýlum víðsvegar um borgina ef þeir eru heppnir. Þau okkar sem eru ekki mikið á ferðinni fá að sjá þessar fallegu myndir á samfélagsmiðlum og hér á heimasíðunni okkar. 

Við fengum til liðs við okkur frábærar listakonur til að setja svip sinn á vitundavikuna og gera hana eftirminilega. Það sem við erum heppin með hæfileikaríkt fólk sem hefur tök á að vekja athygli á félaginu okkar. 

Fjöllistakonan Sunna Ben af sinni einskæru lagni tók magnaðar myndir af hjartahetjunum okkar sem við fáum að njóta góðs af. Með sinni einstöku hlýju og þolinmæði náði hún að mynda 25 hjartahetjur. Eftir að hafa fylgst með henni að störfum held ég að enginn fari frá henni með slæmar minningar. Takk kærlega fyrir okkur kæra Sunna!

Í annað sinn erum við svo heppin að vera í samstarfi við gullsmiðinn EddóDesign, Erlu Gísladóttur, en árið 2020, í vitundarvikunni,  rann allur ágóði af sölu einstakra hringa sem heita Hjartagull til Neistans. Núna hefur hún hannað hálsmen sem einnig heitir Hjartagull og er í stíl við hringinn sem margir bera nú þegar. Eins og hún segir sjálf á síðunni sinni:

Líkt og í hinum sígilda Hjartagull hring er baugurinn sjálfur úr 925S silfri međ hamraðri áferð. Hann er um það bil 12mm í þvermál. Á hverjum baug kùrir svo lítil sæt 14k gullkúla.  Menið kemur á 45cm silfurkeðju.  Öll hálsmenin eru handsmíðuð og einstök. 

Við erum mjög spennt að sjá hversu mörg okkar ætlum að rjúka til og kaupa hálsmen í stíl við hringana okkar. Við erum EddóDesign mjög þakklát fyrir að taka aftur þátt í þessari viku með okkur. 

Við erum mjög heppin með fólk í kringum okkur sem vill leggja hönd á plóg. Vigdís Andersen er vinkona hjartahetju tók að sér það mikilvæga verkefni að vinna með og merkja myndirnar Neistanum og vitundavikunni sem fara í dreyfingu í strætóskýlum, á samélagsmiðla og í prent. 

Sólveig Rolfsdóttir sem er móðir hjartahetju bjó til fallegu myndirnar sem við getum sett í forsíðumyndir eða bara deilt á samfélagsmiðlum sem segir til um tengslin við hjartahetjurnar okkar og sem hjartahetjurnar geta sjálfar notað. Það er hægt að nálgast þessar myndir á facebook síðu Neistans. 

Takk fyrir okkur Vigdís og Sólveig ❤️

Eins og fyrri ár fá öll börn sem fæðast 7.-14. febrúar rauðar hjálmhúfur að gjöf frá Neistanum. Þetta væri ekki hægt nema fyrir svakalega duglega prjónara um allt land sem prjóna húfurnar í sjálfboðavinnu og koma svo húfunum til okkar. Húfurnar eru svo merktar með upplýsingum um hver prjónaði og um vitundavikuna. Þetta er mjög skemmtilegt og fallegt verkefni. Okkur þætti svo gaman ef við fáum svo myndir af börnunum með fínu húfurnar sínar. Enn og aftur erum við full þakklætis öllum sem tóku sér tíma og prjónuðu húfur í þetta krúttverkefni. Húfurnar eru prjónaðar eftir uppskrift Margrétar Hörpu Garðarsdóttur hjartamömmu. 

Þann 9. febrúar verður blóðsöfnunardagur blóðbankans og Neistans. Það er ótrúlega mikilvægt að blóðbankinn sé vel byrgður og viljum við leggja okkar af mörkum og hvetja alla okkar félagsmenn, og auðvitað alla sem tök hafa á, til að flykkjast í Blóðbankann og gefa blóð! 

Opnunartími á Snorrabraut í er frá 8:00-19:00 og á Akureyri frá 10:00-17:00

Neistinn verður á staðnum á Snorrabraut og hlakkar til að taka á móti blóðgjöfum. 

Á samfélagsmiðlum erum við með ótrúlega skemmtilegt verkefni í gangi. Það gengur út á það að taka eftir hjörtunum í umhverfinu. Smelltu mynd af hjörtunum sem þú sérð og merktu með myllumerkjunum #Hjortunokkar, #neistahjortu, #sjaumhjortu og #hjortunokkar á instagram. Það verður gaman að sjá allar þessar myndir og átta sig á hvað hjörtun leynast víða. 

Vitundavikan 2023 verður eftirminnileg og skemmtileg, það erum við viss um. Ef þið þekkið hjartahetju grípið í mynd sem á við á facebook síðu Neistans og skellið í nýja forsíðumynd eða deilið á samfélagsmiðlum. Það er gaman að sjá hvað margir eru svo heppnir að þekkja hjartahetju eða hjartaengil. 

Kaupið hálsmen frá EddóDesign og njótið myndanna sem Sunna Ben tók af hetjunum okkar. 

en umfram allt

Njótið vitundarviku meðfæddra hjartagalla 2023 ❤️