Ég er eineggja tvíburi og fæddist fyrirburi sjö mín á undan tvíburasystur minni fyrir 23 árum, ég var greind viku gömul með alvarlegan hjartagalla og var vart hugað líf. Fór í mína fyrstu stóru opnu hjartaaðgerð aðeins 3 mánaða gömul til Boston.
Ég fæddist með m.a. þrönga fósturæð og stór göt á milli hjartahólfanna og var einnig með yfir hundrað göt í hjartabotninum, sem Hróðmar hjartalæknir kallaði Swiss cheese (svissneskur ostur). Mér var vart hugað líf þar sem ég var svo lítil og létt líka. Fór svo aftur tveggja ára til Boston í opna hjartaaðgerð og einnig í hjartaþræðingar þar sem komið var fyrir sérstöku hjartabúnaði.
Er greind með Goldenhar heilkenni, hjartagalla sem er margskonar og er í dag með hjartabúnað sem heita Starflex og Cardioseal.
Ég hef mikin áhuga á bókum, söng, ferðast, prjóna og Nútímafimleikum sem ég bæði æfi og kenni hjá Öspinni. Er einnig að vinna annan hvern mánudag á Bókasafninu í Kópavogi sem ég elska. Fór til Abu Dhabi árið 2019 og keppti í Special Olympic og fór einnig í sumar til að keppa á Norðulandamóti í Nútímafimleikum fatlaðra.
Fannst einnig mjög gaman að fara með Neistanum í Norrænar sumarbúðir fyrir unglinga með hjartagalla og hitta aðra sem hafa gengið í gegnum það sama og ég hafði gert yfir ævina ❤️