Ég heiti Árný Inga og er fædd í Júní 1979 í Reykjavík. Ég fæddist með þrenns konar hjartagalla ASD, VSD og coarctation. Þetta greinist þegar ég var orðin rúmlega 2.mánaða og þá orðin mjög lasin og þreifst illa. Í dag myndi þessi galli uppgötvast mögulega á meðgöngu við sónarskoðun. Á þessum árum voru sónarskoðanir á meðgöngu ekki byrjaðar. Við greiningu er farið með mig með til London þar sem ég fór í tvær hjartaþræðingar og opna aðgerð. Ári seinna þá rúmlega ársgömul fer ég svo aftur til London í eina hjartaþræðingu og opna aðgerð. Á milli þessa tveggja aðgerða var ég frekar lasin og dvaldi mikið á spítala. Eftir seinni aðgerðina byrjaði ég að braggast og allt fór að fara uppávið.
Allt gekk vel og ég lifði bara nokkuð eðlilegu lífi sem barn og unglingur og heilsan var fín. Fann fyrir úthaldsleysi og var ekki með mikið þol, hélt ekki í við jafnaldra mína þar og það gat verið erfitt. Á unglingsárum þótti mér erfitt að hafa örin sjánleg en í dag truflar það mig alls ekki. Annað var í nokkuð góðu lagi.
Árin liðu og ég var alltaf í eftirliti sem gekk vel. Ég eignaðist börnin mín þrjú og allt gekk mjög vel í sambandi við það, bæði meðgöngurnar og að koma þeim í heiminn. Ég var í þéttu eftirliti á meðgöngunum. Börnin mín eru lánsamlega öll heilbrigð, ég á líka eina heilbrigða ömmustelpu í dag, fyrir þetta er ég mjög þakklát.
Fljótlega eftir þrítugt fór ég að finna fyrir hjartsláttaóreglu og yfirliðum. Sem leiddu til þess að settur var í mig gangráður árið 2012 og er ég í dag á mínum öðrum gangráði. Ég fór svo í hjartaþræðingu í Boston árið 2019 vegna hjartsláttaóreglunar, fékk ekki þann árangur sem vonast var eftir. Í dag er ég á talsvert miklum lyfjum til að halda hjartsláttaróreglunni í skefjum og er í reglulegu eftirliti hjá mínum hjartalækni. Þessi hjartsláttaóregla dregur úr mér þrótt þó svo lyfin hjálpi mikið til. Ég hef því ekki fulla starfsgetu en er þakklát fyrir að geta unnið hlutastarf sem sjúkraliði á Landspitalanum.
Þetta er verkefni sem virðist ætla að fylgja mér út lífið. Með góðu eftirliti, heilbrigðu líferni, reglulegri hreyfingu, hlusta á líkamann, umvefja mig góðu fólki og vera jákvæð þá hef ég bara komist ansi langt og ég hef lifað góðu lífi þó svo auðvitað taki þetta stundum á. Ég er frekar jákvæð og léttlynd að eðlisfari og það hjálpar.
Tilgangur með að segja mína sögu er að sýna að það er hægt að eiga gott og innihaldsríkt líf þó svo eins og í mínu tilfelli verði þetta ævilangt verkefni að vera með meðfæddan hjartagalla. Þetta klárlega hefur mótað mig og hefur að einhverju leyti gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag, á jákvæðan hátt samt.
Mér finnst Neistinn, Taktur og það starf frábært. Þó svo ég sé ekki dugleg að stunda starfið sem slíkt þá fylgist ég með úr fjarlægð og sé hvað félögin eru mikill stuðningur fyrir hjartveik börn/unglinga og fjölskyldur þeirra.