Álag á foreldra langveikra barna er oft og tíðum gríðarlega mikið.
Fyrir utan hefðbundið amstur venjulegra barnafjölskylda þurfa fjölskyldur þessara barna að mæta auknum áskorunum á borð við sérhæfða umönnun, læknaheimsóknir og ýmiss konar meðferð, innlagnir á spítala, áhyggjur af horfum barnsins, öðrum fjölskyldumeðlimum og margt fleira.
Oft er um að ræða ítrekuð áföll sem eðlilega hefur mikil áhrif á sálræna heilsu foreldra og fjölskyldunnar allrar. Þar ofan á bætast gjarnan fjárhagsáhyggjur, þar sem möguleikar foreldra á að stunda fulla vinnu samhliða umönnun barnsins er stundum skert, auk kostnaðarliða sem til koma vegna sjúkra- og lyfjakostnaðar og þjálfunar.
Þess vegna er ómetanlegt að hafa aðgang að gjaldfrjálsi sálfræðiþjónustu við foreldra til að hjálpa þeim að takast á við tilfinningar sínar, streitu, áhyggjur og álag, sorg, samskipti innan fjölskyldunnar og eigin uppbyggingu svo fátt eitt sé nefnt.
Umhyggja býður foreldrum langveikra barna í Umhyggju og aðildarfélögum Umhyggju, sem Neistinn er, upp á stuðningsviðtöl sálfræðings ef þeir óska, en ráðgjöf er veitt bæði á skrifstofu Umhyggju og í gegnum fjarfundarbúnað. Ekki er um að ræða sérhæfðar meðferðir eða greiningar.
Sálfræðingur Umhyggju er Berglind Jensdóttir. Hægt er að óska eftir viðtali með því að sækja um hér.