Vikuna 7.-14. febrúar stendur yfir alþjóðleg vitundarvika um meðfædda hjartagalla.
Þessa viku eykur Neistinn áherslu á fræðslu til almennings um meðfædda hjartagalla og um leið á starfsemi Neistans.
Stjórn Neistans ákvað að hefja vinnu við húfuverkefni að amerískri fyrirmynd – Bandarísku hjartasamtökin og félag hjartveikveikra barna í Ameríku hafa staðið fyrir svona verkefni sem kallast “little hats, big hearts”.
Þá mun Neistinn, með traustri og mikilvægri aðstoð sjálfboðaliða og hjartavina, prjóna og gefa öllum nýburum sem fæðast þessa viku fallega, rauða húfu til að heiðra baráttu hjartveikra barna, en árlega fæðast um 70 hjartveik börn á Íslandi.
Við þökkum öllum kærlega fyrir ómetanlegu aðstoðina við þetta verkefni okkar, sem er örugglega eitt það krúttlegasta sem undirrituð hefur séð!
Myndin er eftir Stefaníu Reynis, en hún gaf Neistanum vinnu sína til að styðja við þetta fallega verkefni. Kunnum við henni hjartans þakkir fyrir.