Skip to main content

Af starfinu – sumar/haust 2014

By október 9, 2014Fréttir

Sumarhátíð 2014 Lína pósar


Frá sumrinu

Norrænu unglingasumarbúðirnar

Sumarhátíð Neistans

Reykjavíkurmaraþon

Alþjóðlegi hjartadagurinn

 

Á döfinni

Soon! – UNGLINGAHÓPURINN: Bogfimi!

7.nóv – Spilakvöld foreldra og aðstandenda

30.nóv – Jólaball Neistans

 


Norrænu unglingasumarbúðirnar

NYC 2014Búðirnar fóru að þessu sinni fram á Íslandi, nánar tiltekið á gistiheimilinu Hjarðarbóli, rétt utan við Hveragerði, dagana 20. – 27. júlí.

 

Um 60 manns frá öllum Norðurlöndunum (10 krakkar og 2 fararstjórar frá hverju landi) komu saman í viku og glímdu við þrautir og skemmtu sér saman.  Að vanda var stór hluti gleðinnar fólginn í því að kynnast öðrum hjartakrökkum og hafa þessar búðir oft verið góður jarðvegur fyrir frekari kynni.

 

Guðrún Bergmann og maðurinn hennar hann Jói voru fararstjórar íslenska hópsins auk þess sem þau báru hitann og þungann af öllum undirbúningi.  Og hann var ekki lítill og var altalað að prógrammið í ár hefði verið sérstaklega mikið og fjölbreytt.

 

Á Fésbókarsíðu okkar má sjá stuðmyndir frá búðunum.

 

 

Sumarhátíð Neistans

Sumarhátíð 2014

Sunnudaginn 17. ágúst héldum við sumarhátíðina okkar í Guðmundarlundi.

Hátíðin stóð frá kl 15:00 til kl. 17:00.  Sólin skein í heiði og það var fantamæting.  Tveir hoppukastalar voru á staðnum í fullri notkun allan tímann.

 

Leynigesturinn reyndist vera Lína langsokkur.  Hún skemmti okkur með söng og glensi og flykktust gestir að til að fá af sér mynd með stelpunni sterku.

 

Grilluðu pylsurnar, drykkirnir og ísinn runnu vel niður og allir fóru glaðir heim


Á Fésbókarsíðu okkar má sjá skemmtilegar myndir frá hátíðinni.


Okkur langar til að þakka eftirtöldum fyrir stuðning við hátíðina:
Sprell.is fyrir lánið á hoppuköstulum.
MS fyrir að splæsa á okkur ís.
Ölgerðinni fyrir drykkina.


Reykjavíkurmaraþon

Reykjavikurmarathon 2014 Fríða og Árni

88 hlauparar hlupu til góðs fyrir Neistann í Reykjavíkurmaraþoni í ár.  Þetta var metþáttaka og safnaðis metfé, um 1,2 milljónir sem renna munu í Styrktarsjóð Neistans

 

Og hlauparar okkar voru ekki einir í harkinu því Neistamenn og vinir söfnuðust saman yfir kakói og kleinum við hlaupabrautina hjá JL-húsinu og hvöttu sína menn.  Skemmtu sér allir konunglega, hlauparar og hvetjarar.  Ekki spurning að þetta verður enn magnaðra næsta ár!

 

Á myndinni má sjá hvernig nýr formaður Neistans, Fríða Björk Arnardóttir, hlaupandi hálft maraþon, eflist við eggjan hvatningarliðs félagsins.

 

Á Fésbókarsíðu okkar má sjá  myndir frá hlaupinu.

 

Alþjóðlegi hjartadagurinn

 

Alþjóðlegi hjartadagurinn var haldinn hátíðlegur á Kópavogsvelli sunnudaginn, 28. september.

Hjartavernd, Hjartaheill, Neistinn og Heilaheill hafa haldið upp á daginn með Hjartadagshlaupinu um árabil í samvinnu við Kópavogsbæ sem hefur boðið þátttakendum í sund að hlaupi loknu.  Alls tóku 270 manns þátt að þessu sinni og er það met­fjöldi.  Hlaupið hófst við Kópa­vogs­völl og lá leiðin út á Kárs­nes og endaði á hlaupa­braut­inni á Kópa­vogs­velli. Boðið var upp á 5 og 10 km vega­lengd­ir.

Í 5 km hlaup­inu voru sig­ur­veg­ar­ar Ingvar Hjart­ar­son, sem hljóp á 16 mín­út­um og 15 sek­únd­um, og Andrea Kol­beins­dótt­ir, með tím­ann 18 mín­út­ur 37 sek­únd­ur. 

Í 10 km hlaup­inu sigraði Arn­dís Ýr Hafþórs­dótt­ir í kvenna­flokki, með tím­ann 38 mín­út­ur og 43 sek­únd­ur, og Geir Ómars­son, en hann hljóp á 35 mín­út­um og 43 sek­únd­um.

Að loknu hlaupinu var Hjarta­gangan geng­in og var farið um Kópa­vogs­dal und­ir leiðsögn Garðyrkju­stjóra Kópa­vogs, Friðriks Bald­urs­son­ar.  Að lokum var öllum boðið í sund.

 

 

Á döfinni:


Bogfimi unglingahóps

Að sjálfsögðu eru unglingarnir okkar á fullu.  Næst er það Bogfimi.  Stefnt er að því að spenna bogana á allra næstu dögum.  Tímasetning verður ákveðin fljótlega en við mælum með að þið fylgist með fésbókarsíðu unglingahópsins. Krakkar 13 ára og eldri, endilega bætið ykkur í hópinn á fésbókarsíðunni.


Spilakvöld foreldra og aðstandenda

Allir að taka frá föstudaginn 7. nóvember, kl. 20:00.  Þá ætlum við aðstandendur að koma saman – kannski með dreitil til að væta kverkarnar – og þeir sem nenna spila framsóknarvist.  Svo má blaðra og bera saman verðlaunin sem flestir (ef ekki allir) fá.


Ath að við þurfum að tilkynna þáttöku.  Sendið póst á neistinn@neistinn.is ekki seinna en á þriðjudaginn 4. nóvember.

Jólabarn

Spilakvöldin hafa verið fáránlega skemmtileg.

 

Jólaball Neistans

…og ekki gleyma jólaballinu.  Við erum að tala um sunnudaginn 30. nóvember, kl. 14 – 16.  Það þarf náttúrulega ekki að hafa mörg orð um jólaballið, þangað koma venjulega allir (m.a.s. jólasveinninn).  Jólatré, hljómsveit, hressing, nammipoki (ef jólasveinninn klikkar ekki).