Skip to main content

Norðurlandaþing 2022

Dagana 7-9 október var Norðurlandaþing 2022 haldið hér á landi. Komu fulltrúar barnahjartasamtaka allra norðurlandanna hingað eða alls 10 fulltrúar nágrannaþjóða okkar. Dagskrá helgarinnar var fjölbreytt og kynntum við þau fyrir matarmenningu okkar, miðborginni og hvernig við höldum upp stuðinu ásamt því að hlusta á fróðlega fyrirlestra og ræða málefni síðustu ára, kynnast hinum félögunum og hvað framundan er. 

 

Fyrirlesarar helgarinnar voru Gyða Valdís Guðmundsdóttir sem flutti kynningu úr meistaraverkefninu sínu í hjúkrun sem fjallaði um upplýsingar og fræðslu sem foreldar barna með hjartagalla þarfnast. Elín Ögmundsdóttir sérfræðingur í nýburahjúkrun á Vökudeildinni og meðlimur í flutningsteymi Vökudeilarinnar kynnti fyrir okkur starf flutningsteymisins bæði þegar börn eru flutt innanlands og einnig þegar þau eru flutt erlendis. Anna Steinsen steig svo í pontu og flutti fyrirlestur undir yfirskriftinni “Aron and me” en hún er móðir drengs sem fæddist með hjartagalla og þurfti að fara í aðgerð erlendis. 

 

Eftir hádegismat fengum við að heyra hvernig sumarbúðirnar gengu sem voru að þessu sinni haldnar í Danmörku í júlí. Hanne K Örtved sýndi okkur dagskránna, myndir, myndbönd og leit heldur betur út fyrir að hafa verið gaman. Einnig sýndu niðurstöður kannanar það sama, en við lok sumarbúðanna gefa þátttakendur vikunni einkunn, niðurstöðurnar voru jákvæðar og eru krakkarnir eflaust spenntir fyrir næstu sumarbúðum sem haldnar verða í Finnlandi. Við fengum einmitt að sjá drög að dagskrá næstu sumarbúða þegar Katja Laine frá Finnlandi kynnti fyrir okkur hvernig sumarbúðum verður háttað sumarið 2023.

 

Eftir fyrirlestrana var áfram fundað en þegar formlegum fundarhöldum lauk gátu þátttakendur skoðað sig um gert sig fín því þau mættu galvösk á árshátíð Neistans sem var loksins haldin. Þau ásamt öllum öðrum gestum skemmtu sér konunglega og voru meira að segja að tala um að þau þyrftu að innleiða eitthvað svipað fyrir sín félög. Við hérna á Íslandinu góða erum greinilega að hafa góð áhrif á hin norðurlöndin. . 

Á sunnudeginum var gestunum boðið uppá að fara í Reykjavík Food Walk. Við löbbuðum….eða meira fukum á milli 5 veitingastaða og fengum að smakka það besta sem íslensk matarhefð býður upp á. Við vorum með skemmtilegan leiðsögumann og var mikið hlegið og skemmt sér. 

 

Eftir smá frí tíma til að skoða sig um var skellt sér í Sky Lagoon, en þó ekki fyrr en öllum gestum þingsins var bent á að kaupa húfur ef þau komu ekki með slíkar nauðsynjar með sér hingað. Þau voru öll mjög þakklát fyrir þessa uppástungu því það er heldur skrautlegt að vera ofan í lóninu í gulri viðvörun. Öll nutu þau sín vel og Finnarnir gáfu saununni ágæta einkunn, hún var heldur þurr að þeirra sögn. 

 

Við þökkum gestum okkar kærlega fyrir komuna og við lærðum helling af hvernig þau vinna sitt starf og að sama skapi fannst þeim margt sniðugt sem við erum að gera. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur sem lítið einangrað land að eiga í góðu norðurlandasamstarfi, það er mikill munur að þurfa ekki að vera alltaf að finna upp hjólið og geta leitað til annara. 

Næsta norðurlandaþing verður haldið næsta haust í Kaupmannahöfn og er undirskifaðri farið að hlakka mikið til að hitta nýja vini aftur. 

 

Jónína Sigríður Grímsdóttir.