Skip to main content

Sumarhátíð Neistans 2022

Fimmtudaginn 11. ágúst var sumarhátíð Neistans loksins haldin eftir 2 ára bið. Hátíðin var haldin í Guðmundarlundi í Kópavogi. Þó að sólin hafi ekki látið sjá sig var vel mætt og bros á öllum andlitum.

Það var sannarlega gaman að sjá félagsmenn aftur eftir ansi langan tíma þar sem það var ekki hægt að hittast enda margir í áhættuhóp. 

Guðrún og Hrafnhildur kepptust við að grilla pylsur ofan í gestina svo var boðið upp á ís, gos, svala og fjölbreytta dagskrá.

Krakkahestar komu og fengu krakkarnir að fara á bak við mikla lukku allra. Lalli töframaður mætti á svæðið í stuði, gaf börnunum blöðrudýr, var með skemmtiatriði og mátti heyra hlátur áheyrenda langt að.

Tónafljóð lokaði svo dagskránni með einkar skemmtilegu tónlistaratriði eins og þeim einum er lagið og er undirrituð enn að söngla lög úr vinsælum teiknimyndum.

Í Guðmundarlundi er frábær aðstaða fyrir alla. Sumir gestir hátíðarinnar spreyttu sig á minigolfi og frisby golfi. Einnig voru allskonar leiktæki fyrir krakkana. Það lögðust eflaust mörg börn þreytt á koddann sinn eftir daginn. 

Við þökkum samstarfsaðilum sem gerðu það að verkum að það var hægt að halda svona veglega sumarhátíð! 

 

Jónína Sigríður Grímsdóttir