Skip to main content

María Kristín ❤️

Ég heiti María Kristín, er 20 ára og bý í Keflavík. Ég greindist með sjúkdóminn ARVD/C þegar ég var 16 ára.

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á íþróttum, var að æfa dans frá ungum aldri og byrjaði í CrossFit í 10.bekk. Ég var heilbrigð, hraust og nýbyrjuð að æfa fyrir mitt fyrsta mót í ólympískum lyftingum.
Í covid var ég mikið að æfa heima með pabba og stjúpmömmu minni og í eitt skipti leið næstum yfir mig.

Okkur datt í hug að þetta væri kolvetnaskortur svo ég fékk mér banana og vatn. Nokkrum dögum seinna, 24.apríl 2020 vorum við að æfa þegar ég skyndilega hneig niður og það leið yfir mig. Stjúpmamma mín áttaði sig fljótt á því að eitthvað alvarlegt hafi gerst. Pabbi og stjúpmamma mín eru bæði í lögreglunni og voru því viðbrögð þeirra mjög skjót, þau hringdu í sjúkrabíl og hófu endurlífgun. Sjúkraflutningamennirnir, sem komu fljótt héldu áfram endurlífgun og settu mig í hjartalínurit þar sem kom í ljós að ég hafði farið í hjartastopp. Eftir þrjár tilraunir með hjartastuðtæki náði hjartað takti. Þeir héldu þá áfram að hnoða hjartað með tæki sem heitir Lucas.

Við tók forgangsflutningur til Reykjavíkur þar sem lögregla fór á undan. Haft var samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu sem lokaði öllum gatnamótum á leiðinni á bráðamóttökuna á Landspítalanum í Fossvogi. Þar var tekin ákvörðun að svæfa mig og kæla líkaman. Næsta sólarhringinn voru gerðar rannsóknir til að finna út hvað olli hjartastoppinu.

Í ljós kom að ég er með sjaldgæfan hjartasjúkdóm sem heitir ARVD/C sem er genasjúkdómur sem veldur alvarlegum hjartsláttartruflunum. Ég var svo færð á hjartadeild á Landspítalanum á Hringbraut og var þar í þrjár vikur. Á þeim tíma var ég lyfjastillt og var ákveðið að ég færi í litla aðgerð þar sem græddur var í mig bjargráður.

Eftir heimkomu tók við nýr raunveruleiki, ARVD/C er einn af fáum hjartasjúkdómum sem versnar við hreyfingu og ég þurfti að læra mörk hjartans. Það var erfitt fyrir mig að sætta mig við þann raunveruleika að ég fengi aldrei það tækifæri að fá að keppa í íþrótt. Lífið hefur heldur betur verið rússíbani eftir fyrsta hjartastoppið en ég er alltaf þakklát fyrir það að vera á lífi og þakklát fyrir bjargráðinn sem hefur tvisvar þurft að gefa mér stuð.

Ég er ein af þeim heppnu sem lifir af hjartastopp, því miður greinast margir með sjúkdóminn ARVD/C eftir andlát 💔