Skip to main content
Yearly Archives

2013

Dagatal Neistans 2014

By Fréttir

Dagatal 2014

 

Dagatal Neistans 2014 er komið út!

 

 

Að vanda prýða dagatalið flottar myndir af hjartabörnum á öllum aldri.

 


Dagatalið kostar 2.000 kr. og rennur ágóðinn óskertur til styrktar hjartveikum börnum.

Þeir sem hafa áhuga á að kaupa (eða selja) dagatöl geta pantað það með pósti á neistinn@neistinn.is
eða í síma 552-5744.

Allir á bíó – Laugarásbíó býður á FURÐUFUGLA

By Fréttir

Furðufuglar

Laugardaginn 21. desember ætlar Laugarásbíó að bjóða Neistafólki – og þá erum við að meina hjartakrökkum, mömmum og pöbbum, öfum og ömmum, frænkum og frændum og …

– á fyndnustu fuglamynd allra tíma, FURÐUFUGLA.

 

Sýningin hefst kl. 12:00 (hádegi sumsé … ekki á miðnætti).


Varúð!  Menn verða að passa sig að springa ekki úr hlátri!


 


 

Munið fésbókarsíðuna okkar: https://www.facebook.com/Neistinn.StyrktarfelagHjartveikraBarna


ABC leikföng – afsláttur fyrir félagsmenn

By Fréttir

ABC-leikfongForeldrum og aðstandendum langveikra og fatlaðra barna stendur til boða að versla vörur í ABC leikföngum á lægra verði fram að jólum. ABC Leikföng er eina fyrirtækið á Íslandi sem sérhæfir sig í þroskaleikföngum. ABC leikföng varð til eftir að foreldrar fundu ekki viðeigandi þroskaleikföng fyrir barn sitt og fannst vanta vörur til að örva þroska barna.

 

Meðal þeirra vara sem ABC leikföng bjóða upp á eru málörvunarvörur frá Super Duper sem margir foreldrar þekkja og flestir talmeinafræðingar nota. Einnig er mikið af vörum frá Learning Resources sem hægt er að nota til þess að þjálfa og kenna m.a. liti, form, tölur og orðaforða. Nýjasta viðbótin eru síðan Stafakubbar með séríslensku stöfunum sem hægt er að tengja saman til að móta orð og jafnvel setningar. Á vefsíðu fyrirtækisins www.abcleikfong.is má sjá yfirlit yfir vörur sem eru í boði. Einnig er póstsending í boði en þá er best að senda tölvupóst á 

Opið verður fyrir félagsmenn á þriðjudags- og fimmtudagskvöldum milli klukkan 20 og 22 fram að jólum. Almennur afgreiðslutími er á virkum dögum milli klukkan 12 og 18 en á laugardögum er opið klukkan 12 til 16.

 

Kristín Hlynsdóttir stofnandi ABC leikfanga þurfti að bíða lengi eftir þroskagreiningu á barni sínu og biðlistar eftir sérfræðiaðstoð voru langir.  Kristín reyndi ásamt starfsfólki leikskóla barnsins að örva það með þeim hjálpartækjum sem þau gátu fengið.  Þá uppgötvaði Kristín hversu mikil þörf er á sérkennslugögnum og leikföngum fyrir börn með sérþarfir. ABC Leikföng voru stofnuð sumarið 2010. Í byrjun var fyrirtækið í Súðarvog 7 á 2. hæð í 20 fm herbergi en er nú í nóvember að flytja í 120 fm verslunapláss í sama húsi.

 

 

ABC leikföng,  Súðarvogur 7,  sími 841 6600

www.abcleikfong.is –  info@abcleikfong.is

Spilakvöld foreldra 2013

By Fréttir

 Spilakvöld Ellý

Nú styttist í það – munum að skrá okkur!

 

Hið árlega spilakvöld Neistans brestur á föstudagskvöldið 8. nóvember kl. 20:00 í húsnæði Neistans að Síðumúla 6, 1.hæð (gengið inn á vinstri hlið) .

 

Spiluð verður félagsvist (sem sumur kalla framsóknarvist).

 

Flestir kunna þetta fína spil – en þeir sem muna ekki reglurnar þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur.  Smellið bara hér.

En maður þarf náttúrulega ekkert að kunna – aðalatriðið er að vera með.

 

Spilakvöld

 

Þeir sem mættu í fyrra vita að hverju þeir ganga enda var alveg hrikalega skemmtilegt, en í boði verður…

  • skemmtilegur félagsskapur
  • veglegir vinningar
  • snarl

(komum sjálf með dreitil til að væta kverkarnar því nóg verður spjallað – og jafnvel spilað)



Hjartaforeldrar, aðstandendur, mætum öll!


Tilkynna þarf þátttöku í síðasta lagi þriðjudaginn 5. nóvember á neistinn@neistinn.is.

Á döfinni – haust 2013

By Fréttir

Guðrún og jólasveinn

Nú er eins gott að draga fram almanakið og setja hring um nokkra daga. 

Það stefnir í skemmtilegan vetur hjá okkur.

 

Vídeókvöld (Unglingahópurinn)

Unglingahópurinn ætlar að hittast fljótlega heima hjá Guðrúnu og Jóa (höfum við heyrt) og hangsa og chatta yfir vídeói eða eitthvað.  Nánar seinna.

 

Spilakvöld (foreldrar)

Spilakvöld fyrir foreldra hjartabarna verður haldið föstudaginn 8. nóvember.  Menn ráða því hvað þeir taka spilið alvarlega en þarna verða veglegir vinningar í boði.  Og fullt af þeim.

 

Á spilakvöldin kippa menn gjarnan með sér einhverri hressingu til að liðka um spilafingurna (og málpípuna).

 

Bíó – öll fjölskyldan

Eins og vanalega verður okkur boðið í bíó á einhverja frábæra fjölskyldumynd þegar nær dregur jólum.  Öll smáatriðin verða hér á vefnum þegar nær dregur.

 

Jólaball

Að vanda verður jólaballið á sínum stað.  Jólasveinninn kemur með pokann góða.  Dansað verður í kringum jólatréð og allt það.  Kaffi og krakkahressingar og bara mikil gleði.  Jólaböllin hafa verið rosalega vel sótt enda stemningin bara frábær. 

Takið frá sunnudaginn 8. desember, kl. 14 – 16.

 

 

Munið Fésbókarsíðuna okkar:

      https://www.facebook.com/neistinn.styrktarfelaghjartveikrabarna

 

Nánari upplýsingar um unglingastarfið er að finna hér.

Styrkjum hjartaþræðina – söfnun fyrir nýju hjartaþræðingartæki

By Fréttir


styrkjumhjartaNeistinn og Hjartaheill hafa hrundið af stað átakinu Styrkjum hjartaþræðina, til söfnunar fyrir nýju hjartaþræðingartæki á hjartadeild Landsspítalans. Elsta hjartaþræðingartækið á Landspítalanum er nú orðið 16 ára gamalt og aðeins tímaspursmál hvenær notkun þess verður alfarið hætt.  Í dag eru 260 manns á biðlista eftir hjartaþræðingu sem er algerlega óviðunandi ástand.

 

Með nýju tæki er hægt að stytta biðlistana og auka lífsgæði fjölda fólks sem nú býr við mikla óvissu. 50 til 70 börn fæðast árlega með hjartagalla og rúmlega 700 Íslendingar látast árlega af völdum hjarta- og æðasjúkdóma. Hjartadeildin þarf nauðsynlega að eignast nýtt hjartaþræðingartæki en þar eru framkvæmdar um 200 aðgerðir í hverjum mánuði.


Biðlað er til landsmanna um að leggja fé til söfnunarinnar, en það er hægt með þrennum hætti, greiða valgreiðslu í heimabanka, hringja í styrktarsíma, eða leggja beint inn á reikning söfnunarinnar ef um hærri fjárhæðir er að ræða. 


LEIÐ 1:

Valgreiðslur munu birtast í heimabönkum elsta íbúa hvers heimilsfangs á næstu dögum.

 

LEIÐ 2

Styrktarsímanúmer

907-1801 – 1000 kr. framlag

907-1803 – 3000 kr. framlag

907-1805 – 5000 kr. framlag

 

LEIÐ 3

Leggja inn á reikning. Hentar fyrirtækjum og öðrum sem vilja láta meira af hendi rakna.

0513-26-1600
kt: 511083-0369

Alþjóðlegi hjartadagurinn: Leikhópurinn Lotta

By Fréttir


Leikhópurinn Lotta

Haldið verður uppá 30 ár afmæli Hjartaheilla og Alþjóðlega hjartadaginn sunnudaginn 29. september 2013.   Þá munum við efna til 3 km göngu frá Síðumúla 6, kl. 11:00 og ganga um Laugardalinn.


Kl. 12:00 mun leikhópurinn Lotta koma í Síðumúlann og skemmta börnum sem fullorðnum og að því loknu býður Subway gestum upp á samlokur. Vonandi sjáum við sem flesta mæta.

 


Einnig verður Hjartadagshlaupið á vegum Hjartaverndar. Hlaupið er frá Kópavogsvelli kl. 10:00. Hægt er að skrá sig í hlaupið á www.hlaup.is en í boði eru 2 vegalengdir.

jakob hleypur

Reykjavíkurmaraþon – 50 hlupu fyrir Neistann

By Fréttir

 

Reykjavikurmaraþon - Jakob hleypur

 

Reykjavíkurmaraþonið fór vel fram að vanda og hlupu um 50 hlauparar til góðs fyrir Neistann.  Ekki er enn ljóst hve mikið safnaðist fyrir okkur, en þó það að upphæðin nemur hundruðum þúsunda og er hærri en nokkru sinni. 

 

Á myndinni hér til vinstri koma hjartastrákurinn Jakob Smári og systir hans, Malín, í mark en þau hlupu ásamt bróður sínum og föður og söfnuðu áheitum fyrir Neistann.

 

Hægt er að sjá alla hlauparana okkar með því að smella hér.

 

Neistinn þakkar af öllu hjarta þessu góða fólki fyrir framgöngu þeirra svo og þeim sem tóku upp veskið og hétu á hlaupara Neistans.

Jólakortasamkeppni 2013

By Fréttir

Jólakortasamkeppni 2013Nú styttist í jólin … eða þannig.  Í ár ætlar Neistinn að leita til allra hjartabarna og systkina þeirra um hugmynd að jólakorti Neistans 2013


Það sem þið þurfið að gera er að teikna fallega mynd sem tengist jólunum og senda til okkar í Síðumúla 6, 108-Reykjavík eða á netfang okkar neistinn@neistinn.is í síðasta lagi 30. ágúst.  Jólakort Neistans í ár verður valið úr innsendum myndum, svo einhver krakkanna okkar fær heiðurinn af Jólakorti Neistans 2013. 


Hlökkum til að taka á móti fallegum myndum.

Reykjavíkurmaraþon 2013 – Hlaupið fyrir Neistann

By Fréttir

 

 

Reykjavíkurmarathon 2013Reykjavíarkurmaraþon verður hlaupið 24. ágúst.  Maraþonið er 30 ára í ár og má því búast við mikilli þátttöku og góðri stemmningu.  Að vanda geta vinir Neistans tekið þátt í söfnun fyrir félagið með því að heita á þá hlaupara sem hlaupa til góðs í nafni Neistans.  Nú eða þá að hlaupa sjálfir í nafni félagsins og safna áheitum.

 

 

Heita á hlaupara – styrkja Neistann

 

Hver sem er getur heitið á þá sem hlaupa fyrir góð málefni og styrkja góðgerðarfélög eins og Neistann.  Hægt er að heita á hlaupara fram að miðnætti mánudaginn 26. ágúst en hlaupið fer fram laugardaginn 24. ágúst 2013.
 
Hlaupara Neistans má sjá hér á http://www.hlaupastyrkur.is/godgerdafelog/felag/490695-2309.  Auðvelt er að heita á þá á síðunni en hægt er að greiða áheit með kreditkorti, millifærslu eða með því að senda áheitanúmer keppenda sem sms skeyti.
 

 

Hlaupa til góðs – safna fyrir Neistann

 

Ef þú vilt sjálf(ur) hlaupa til góðs (t.d. fyrir Neistann) skráir þú þig fyrst í Reykjavíkurmaraþonið á www.marathon.is.  Í skráningarferlinu er boðið upp á að skrá sig sem góðgerðarhlaupara fyrir ákveðið góðgerðarfélag. Haka þarf í reitinn “Já, ég vil hlaupa til góðs” og velja góðgerðarfélag í fellilistanum.  Nafn þitt birtist á síðunni www.hlaupastyrkur.is og hver sem er getur heitið á þig.  Þú getur sett inn myndir á síðunni og eða sagt frá ástæðu þess að þú hleypur fyrir félagið.

 

 

Viðurkenningarskjal – Þakkir

 

Um leið og Neistinn hvetur fólk til að taka þátt í þessu skemmtilega átaki hvetjum við hlaupara að skrá sig og hlaupa fyrir hjartabörn á Íslandi. Þeim sem safna áheitum fyrir Neistann fá sérstakt viðurkenningarskjal í þakklætisskyni frá félaginu.  Þeim fjölmörgu sem hlaupið hafa í gegnum árin fyrir Neistann eru færðar hjartans þakkir fyrir þeirra framlag.