Nú er eins gott að draga fram almanakið ogsetja hring um nokkra daga.
Það stefnir í skemmtilegan vetur hjá okkur.
Ævintýragarðurinn (Unglingahópurinn)
Unglingahópurinn ætlar að fjölmenna í Adrenalingarðinn á Nesjavöllum (adrenalin.is) föstudaginn 19. október. Þetta verður dúnduruppákoma og sennilegast frítt inn fyrir krakkana okkar. Allt um þennan viðburð á næstu dögum hér á vefnum.
Leikhús – Dýrin í Hálsaskógi
Þjóðleikhúsið býður félagsmönnum Neistans 800 kr. afslátt á sýningum sínum á Dýrunum í Hálsaskógi. Sýningar eru hafnar, svo það er um að gera að rífa upp símann (551 1200) og panta miða. Muna að nefna Neistann og þá fæst 800 kr. afsláttur af hverjum miða. Hægt er að panta miða með tölvupósti (midasala@leikhusid.is) en afsláttarmiðareru ekki seldir á netinu.
Spilakvöld (foreldra)
Spilakvöld fyrir foreldra hjartabarna verður haldið föstudaginn 2. nóvember. Menn ráða því hvað þeir taka spilið alvarlega en þarna verða veglegir vinningar í boði. Og takið eftið því að allir (já, mikið rétt; allir) fá óvæntan glaðning. Kannski menn kippi með sér einhverri hressingu en spilakvöldið verður auglýst nánar mjög fljótlega.
Jólaball
Að vanda verður jólaballið á sínum stað. Jólasveinninn kemur með pokann góða. Dansað verður í kringum jólatréð og allt það. Kaffi og krakkahressingar og bara mikil gleði. Jólaböllin hafa verið rosalega vel sótt enda stemningin bara frábær.
Takið frá laugardaginn 8. desember, kl. 14 – 16.
Árshátíð – 2013
Stefnan hefur sett á árshátíð foreldra (og aðstandenda og áhugamanna og …) snemma á næsta ári. Hún hefur ekki verið haldin fyrr en þetta verður alvöru, með skemmtiatriðum, DJ o.s.frv. Leyilegt verður að beita hvaða trixum sem er, löglegum, til að örva mál- og dansstöðvarnar. Meira seinna … en allt í lagi að fara að hita sig upp andlega.
BINGO – 2013
Að sjálfsögðu verður hið árlega BINGO Neistans á sínum stað. Bingóin Neistans eru fyrir alla fjölskyldun og er alltaf sérstaklega góð stemning á þeim og vel mætt. Verið vakandi gagnvart tilkynnungum þar að lútandi þegar næsta ár er komið í gang.
Nánari upplýsingar um unglingastarfið er að finna hér.