Guðbjörg Gerða fæddist í mars 2022 með slagæðavígslun (d-TGA). Gallinn greindist við fæðingu eða nokkrum klukkustundum eftir fæðingu. Hún kom í heiminn organdi og alveg fullkomin, en blánaði fljótt eftir fæðingu og var þá farið að greina hvað olli lágri súrefnismettun hjá henni.
Guðbjörg Gerða er fyrsta barn okkar foreldra hennar og þetta var mikið áfall fyrir okkur en gott að vita og vera fullvissuð um að hún væri í öruggum höndum allan tíman. Í mars 2022 var ennþá mikið um covid-smit en margir orðnir bólusettir og sóttvarnaraðgerðir ekki jafn harðar en inn á spítalanum var að sjálfsögðu enn gætt fyllstu varúðar. Þetta var ólíkari reynsla af því að eignast barn í fyrsta skipti heldur en við hefðum nokkur tíman geta ímyndað okkur. Það var enn mikið takmarkað hver mætti vera inná fæðinga-, sængurlegu- og vökudeild þannig að nánast fjölskylda ömmur, afar og frændur gátu t.d. ekki hitt Guðbjörgu Gerðu áður en við þurftum að fara út til Svíþjóðar þar sem hún þurfti að fara í aðgerð til að leiðrétta gallann. En við bara getum ekki talað nóg um hversu gott fólk á Landspítalanum kom að allri aðhlynningu bæði hennar og mömmunnar eftir keisaraskurð.
Við fórum til Lund í Svíþjóð þegar hún var 4 daga gömul og hún fór í aðgerð viku gömul. Aðgerðin gekk alveg ótrúlega vel, Guðbjörg Gerða stóð sig eins og hetja og mjög gott fólk úti í Lund sem annaðist hana og okkur. Í aðgerðinni var gallinn alveg leiðréttur og ekki þörf á frekari aðgerðum. Dvöl okkar foreldra hennar í Lundi var aftur á móti svolítið skrautleg, við ekki mikið undirbúin fyrir að vera með ungbarnið okkar annars staðar en heima, það var pakkaði í flýti og mamman að jafna sig eftir keisaraskurð varla göngufær fyrstu dagana. Ömmur hennar Guðbjargar Gerðu komu út til okkar og móðurbróðir hennar yfir frá Kaupmannahöfn á þessum tæpum þremur vikum sem við dvöldum í Lundi sem létti töluvert á okkur og virkilega gott að fá þau öll til okkar. Svíinn var orðinn ansi afslappaður með tilliti til covid á þessum tíma og ömmurnar máttu verja tíma með okkur í Ronald Macdonald húsinu og fengu að koma aðeins inná hjartadeildina (á heimsóknartíma) á meðan Guðbjörg Gerða var ennþá þar. Henni var haldið sofandi í þrjá daga eftir aðgerð en þegar hún vaknaði tók við stórt verkefni að læra drekka sjálf, með mikilli þolinmæði og vinnu fór hún að taka brjóst og vildi pela. Hún þyngdist frekar hægt til að byrja með en heilt yfir gekk henni mjög vel að jafna sig eftir aðgerð.
Við dvöldum tvær nætur á Barnaspítalnum eftir að við komum heim, fengum að hitta næringafræðing og brjóstagjafaráðgjafa og fundum fyrir miklum stuðningi þar. Guðbjörg Gerða kom svo heim til sín í mömmu og pabba hús 4 vikna gömul laus við sonduna.
Okkur finnst við vera mjög lánsöm og eftir aðgerð mun hjartagallinn ekki koma til með að há henni í daglegu lífi, mögulega verða einhverjar íþróttir að vera stundaðar meira til gamans heldur en afreks eða atvinnu, en við finnum útúr því öllu saman í góðu samstarfi með Ingólfi hjartalækninum hennar þar sem hún verður í eftirliti alla ævi.
Í dag er Guðbjörg Gerða næstum 2 ára, hún vex og dafnar mjög vel og alltaf komið vel út í hjartaskoðunum. Það er alveg ótrúlegt að fylgjast með henni læra nýja hluti á hverjum degi og hlusta á hana segja okkur frá öllu sem drífur á daginn hennar. Hún elskar dýr, bangsana sína, að lita og hlusta á Latabæjarlög og hoppa og skoppa. Við erum gífurlega þakklát fyrir allt og alla sem komu að því að bæta heilsu hennar og rosalega stolt af hjartahetjunni okkar, henni Guðbjörgu Gerðu.
Við hlökkum til að taka meira þátt í starfi Neistans í framtíðinni og ánægð með það sé til staður fyrir Guðbjörgu Gerðu til að hitta önnur börn með svipaða sögu og hún sjálf.