Margrét Ásdís fyrrum hjartabarn og annar fararstjóri Neistans í Norrænu sumarbúðirnar segir hér frá sinni upplifun af sumarbúðunum.
Árið 2008, þá 14 ára, fór ég í norrænu sumarbúðirnar í fyrsta sinn. Ég ákvað að slá til og skella mér með þrátt fyrir að hafa aldrei heyrt um sumarbúðirnar áður né þekkti þá sem væru að fara. Við vorum bara tvær sem fórum frá Íslandi. Ég og Guðný Sif fórum ásamt fararstjóra og var förinni heitið til Svíþjóðar.
Þrátt fyrir að við þekktumst ekkert varð þessi ferð ein sú skemmtilegasta sem ég hef upplifað. Ég var alls ekkert viss um að fara en ákvað svo að slá til og skella mér. Þetta er ákvörðun sem ég sé sko ekki eftir. Við fórum í skemmtigarða, í leiki, í verslunarferð, vatnsstríð, kvöldvökur og allskonar aðra afþreyingu ásamt því að fá nægan tíma til þess að kynnast hinum krökkunum og mynda vinasambönd. Ekki nóg með að fá að fara til útlanda kynntumst við öðrum unglingum og mynduðum vinasambönd sem eiga eftir að endast okkur í mörg ár, jafnvel út ævina.
Í þessari fyrstu ferð í NYC (Nordic Youth Camp) ákvað ég fara á hverju ári ef ég ætti kost á því. Ári seinna var förinni heitið til Noregs en þá var hópurinn orðinn stærri. Við fórum sex unglingar saman frá Íslandi og eyddum frábærri viku í yndislegum félagsskap með góðum vinum, bæði vinum sem við höfðum kynnst árinu áður í Svíþjóð en einnig nýjum vinum. Ég endaði á því að fara fjögur ár til fjögurra mismunandi landa og alltaf var jafn gaman í sumarbúðunum. Hvort sem það var úrhellis rigning í Danmörku, fjórhjólaferð á Íslandi eða bara að hanga uppi á herbergi með vinum frá hinum löndunum, þá eru þetta minningar um einstaklega skemmtilegar vikur sem ég er svo þakklát að hafa átt því aldrei hefði mig grunað hvað ég myndi skemmta mér vel.
Í dag er ég 28 ára og er orðin fararstjóri fyrir Neistann í þessum sömu sumarbúðum. Þegar ég hugsa til baka til áranna sem ég fór sjálf sem unglingur stendur helst upp úr gleðin og hvað var ótrúlega gaman að fara ásamt þakklæti yfir öllum vinunum sem ég eignaðist. Þetta eru dýrmætir vinir sem ég er ennþá í sambandi við, 14 árum seinna. Sumarbúðirnar eru stór hluti af því sem gerði unglingsárin eins skemmtileg og þau voru. Ég hefði aldrei viljað missa af tækifærinu að fara.