Við óskum þessu góðhjörtuðu brúðhjónum innilega til hamingju með lífið og hvort annað!
Hið árlega spilakvöld Neistans fyrir foreldra hjartveikra barna og fullorðna með hjartagalla verður haldið á föstudagskvöldið 2. nóvember kl. 19:30 í húsnæði Neistans að Síðumúla 6, 2.hæð .
Hjartaforeldrar og GUCH, mætum öll en aldurstakmark er 18 ára – við höfum gott af því !
Spiluð verður félagsvist (sem sumur kalla framsóknarvist).
Flestir kunna þetta fína spil – en þeir sem muna ekki reglurnar þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur.
En maður þarf náttúrulega ekkert að kunna – aðalatriðið er að vera með.
Þeir sem mættu í fyrra vita að hverju þeir ganga enda var alveg hrikalega skemmtilegt, en í boði verður…
skemmtilegur félagsskapur
veglegir vinningar
snarl
(komum sjálf með dreitil til að væta kverkarnar því nóg verður spjallað – og jafnvel spilað)
Tilkynna þarf þátttöku í síðasta lagi miðvikudaginn 31. október á neistinn@neistinn.is. ATH mikilvægt að tilkynna þáttöku.
Alþjóðlegi hjartadagurinn er haldinn 29. september ár hvert en það er Alþjóðahjartasambandið (World Heart Federation) sem hvetur aðildarfélög sín um allan heim til að halda upp á Hjartadaginn.
Á Íslandi sameinast Hjartavernd, Hjartaheill, Neistinn og Heilaheill.
Í ár er lögð áhersla á að fólk hugsi um sitt eigið hjarta og ástvina sinna, „hjartað mitt og hjartað þitt“.
Félögin hafa haldið upp á daginn með hjartadagshlaupi og göngu um árabil í samvinnu við Kópavogsbæ sem hefur boðið þátttakendum í sund að hlaupi loknu.
Laugardaginn 29. september kl. 10:00 verður hjartadagshlaupið ræst. Boðið er upp á 5 og 10 km vegalengdir og er þátttaka ókeypis. Hlaupið verður ræst frá Kópavogsvelli og liggur hlaupaleiðin um Kársnesið. Skráning í hlaupið fer fram á www.netskraning.is og við stúkuna fyrir hlaup frá klukkan 9 en hlaupið hefst klukkan 10:00. Flögutímataka er í hlaupinu. Notaður verður tímatökubúnaður frá Tímataka.net og verða verðlaun veitt fyrir efstu sæti auk útdráttarverðlauna. Frjálsíþróttadeild Breiðabliks sér um framkvæmd hlaupsins. Þegar úrslit liggja fyrir verður hægt að sjá þau á heimasíðum félaganna, timataka.net og á hlaup.is. Þátttakendum verður boðið í sundlaugar Kópavogs að loknu hlaupi.
Þann 29. september kl. 11:00 hefst hjartadagsgangan í Elliðarárdalnum. Lagt verður af stað við brúnna sem er á milli gömlu rafstöðvarinnar og Toppstöðvarinnar. Göngustjórar eru starfsmenn Hjartaheilla og er þátttaka ókeypis. Genginn verður hringur sem er rétt um 4 km.
Hjartasjúkdómar eru fyrirbyggjanlegir og með því að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl má seinka sjúkdómnum og jafnvel koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll.
Hreyfðu þig! Hreyfing þarf ekki að vera bundin við íþróttir eða líkamsrækt og getur verið margs konar, eins og við heimilisstörf, garðvinnu eða einfaldlega að fara út og leika við börnin. Settu þér raunhæf markmið, ekki byrja á því að klífa fjall eða hlaupa maraþon, þú byggir upp þrek og þol smám saman.
Borðaðu hollt! Takmarkaðu neyslu á unnum matvörum sem oft innihalda mikinn sykur, salt og mettaða fitu. Gerðu holla matinn spennandi fyrir börnin, berðu fram litríkan mat eins og ávexti og grænmeti og láttu þau aðstoða við matargerðina. Leiddu hugann að skammtastærðum, notaðu minni matardiska og leyfðu grænmetinu og ávöxtunum að taka mesta plássið.
Segðu NEI við tóbaki! Hafðu reykingarlaust umhverfi. Fræddu börnin þín um skaðsemi tóbaks til að hjálpa þeim að velja líf án tóbaks. Til eru ýmsar leiðir til að hætta að reykja og stundum þarf að leita til sérfræðings.
Núna eru liðnir nokkrir dagar frá Reykjavíkurmaraþoninu, og búið að loka fyrir áheitasöfnun.
Í ár hlupu hátt í 95 manns fyrir félagið, og söfnuðu hvorki meira né minna en 2.864.978 krónum!
Við viljum þakka öllum hlaupurunum okkar, sem og öllum þeim sem hétu á þá, og að sjálfsögðu öllum sem mættu á hvatningarstöðina og hvöttu hlauparana áfram!
Takk fyrir okkur ♥
Hjartans þakkir fyrir okkur, ykkar framlag er okkur ómetanlegt ♥
Nú styttist í Reykjavíkurmaraþonið sem mun fara fram þann 18. ágúst n.k.
Skráningarhátíðin fer fram þann 16. og 17. ágúst í Laugardalshöllinni, og við hvetjum alla til að koma við hjá okkur þegar þeir sækja númerin sín!
Reykjavíkurmaraþonið hefur verið ein af okkar stærstu fjáröflunarleiðum undanfarin ár, og skiptir félagið mjög miklu máli en um 70 börn á ári greinast á Íslandi með hjartagalla. Við erum endalaust þakklát öllum hlaupurunum okkar og öllum sem hafa hvatt þá áfram og heitið á, og með því styrkt við starf félagsins
Til þess að sýna þakklæti okkar ákváðum að gefa öllum hlaupurum Neistans dry-fit bolimerkta félaginu.
Fjöldinn allur af flottu fólki ætlar að hlaupa fyrir Neistann í ár og bætist sífellt á listann!
Við viljum hvetja alla hlaupara til að minna á sig, og nota “hashtöggin” #Neistinn #ÉghleypfyrirNeistann, #skiptirekkimáliámeðanþúklárar og #Reykjavikurmarathon
Og eins og áður verður Neistinn með skemmtilega hvatningarstöð á hlaupaleiðinni við JL húsið (kort hér) sem við að sjálfsögðu hvetjum alla til að mæta á og hvetja hlauparana okkar!
Hér er hægt að skoða hlaupara Neistans og heita á þá – ÁFRAM NEISTINN!
Lokað vegna sumarleyfa.
Skrifstofa Neistans verður lokuð frá 3. júlí til og með 7. ágúst 2018. Hægt verður að hafa samband í síma 899-1823 ef eitthvað kemur upp á þessum tíma.
Minnum á heimasíður félaganna neistinn.is
Sumarhátíð Neistans var haldinn sunnudaginn 10.júní síðastliðinn í Björnslundi. Hátíðin heppnaðist prýðisvel og fengum við milt og gott veður þennan dag. Hoppukastali var á svæðinu sem er alltaf vinsæll hjá börnunum. Blaðrarinn mætti til að gleðja börnin, tvær snilldar stelpur sáu um andlitsmálingu og allir fengu grillaðar pylsur og drykk. Að lokum fengu allir ís frá ísbílnum.
Einstaklega velheppnuð sumarhátíð og þökkum við öllum styrktaraðilum kærlega fyrir stuðninginn: Iceland,SS, Ísbílnum, Sprell.is, Vífilfell og Blaðraranum.
Takk allir sem komu og áttu góða stund með okkur ♥
Aðalfundur Neistans var haldinn fimmtudaginn 17.maí síðastliðinn. Almenn ánægja ríkir með vinnu félagsins síðasta liðið ár og kosið var í nýja stjórn.
Fráfarandi formaður Elín Eiríksdóttir, Ellen Helga Steingrímsdóttir varaformaður og Berglind Sigurðardóttir gjaldkeri gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi setu og þökkum við þeim kærlega fyrir frábærlega unnin störf síðast liðin ár hjá félaginu.
Ný stjórn hefur nú tekið við og voru fjórir stjórnarmenn kosnir inn, þrír til tveggja ára og einn til eins árs.
Í stjórn félagsins sitja nú:
Guðrún Bergmann – Formaður
Arna Hlín Daníelsdóttir
Helga Kristrún Unnarsdóttir
Ingibjörg Ólafsdóttir
Katrín Brynja Björvinsdóttir
Ragna Kristín Gunnarsdóttir
Sólveig Rolfsdóttir
Fríða Björk Arnardóttir gegnir starfi framkvæmdarstjóra félagsins.