Á dögunum kom golfarinn Bjarni Sigurðsson færandi hendi í höfuðstöðvar Neistans og afhenti Fríðu framkvæmdastjóra veglegan styrk. Um er að ræða fé sem safnaðist í leiknum „Látum gott af okkur leiða” í CostaBlanca Open 2017 golfmótinu á Spáni í vor. Við hjá Neistanum færum öllum golfurum sem tóku þátt hjartans þakkir , auk þeirra fyrirtækja og vildarvina Costablanca sem létu gott af sér leiða í tengslum við mótið!
Karl Roth og Margrét Kristjánsdóttir, foreldrar Heklu hjartastelpu héltu saman upp á stórafmæli sín í október síðastliðinn. Saman héltu þau stóra veislu og í stað gjafa óskuðu þau eftir framlagi til Neistans í afmælisbauk. Upp úr bauknum komu svo 300 þúsund krónur !
Hjartans þakkir til ykkar kæru hjón og innilega til hamingju með daginn ykkar !
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Neistinn hafa haldist þétt í hendur þetta sumarið. Við fengum afhentan styrk frá þeim sem er afrakstur samvinnu sumarsins. Hjólandi og hlaupandi, hafa þau glatt okkur með því að vekja athygli á Neistanum.
Við þökkum öllum vinum okkar hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins hjartanlega fyrir !
Unglingahópur Neistans hittist síðastliðinn laugardag, Black Beach Tours bauð unglingunum í ógleymanlega fjórhjólaferð. Mætingin var frábær, allir skemmtu sér ótrúlega vel og gleðin var alsráðandi allan daginn. Við færum Black beach tours hjartans þakkir fyrir frábæran dag og ómetanlegar móttökur. Unglingahópurinn og við öll fengum frábærar minningar í minningarbankann.
Enduðum þennan frábæra dag á pizzahlaðborði á Svarta Sauðnum.
Takk fyrir okkur !
Guðrún og Jói, umsjónarmenn unglingahópsins.
Höfundar Kransæðabókarinnar hafa veitt Neistanum, styrktarfélagi hjartveikra barna, 500 þúsund króna fjárstyrk. Fríða Björk Arnardóttir tók við styrknum 21. september 2017 fyrir hönd Neistans úr höndum prófessoranna Guðmundar Þorgeirssonar, ritstjóra bókarinnar, og Tómasar Guðbjartssonar.
Hugmyndina að styrkveitingunni átti Guðbjörg Ingvarsdóttir gullsmiður og eigandi Aurum en hún ákvað í sumar að gefa kvenhöfundum Kransæðabókarinnar hálsmen með gullhjarta sem hannað var af Siggu Heimis hönnuði. Sem þakklætisvott ákváðu höfundar Kransæðabókarinnar að afhenda Neistanum 500 þúsund króna styrk en Aurum hefur áður stutt veglega við bakið á samtökunum.
Kransæðabókin kom út fyrir tæplega ári síðan og hafa móttökur verið það góðar að prenta varð annað upplag síðastliðinn vetur. Hagnaður af sölu bókarinnar verður nýttur til að styðja við rannsóknir á hjartasjúkdómum og til góðgerðarmála. Kransæðabókin er enn fáanleg í Lyfjaveri við Suðurlandsbraut og Bóksölu stúdenta en einnig er hægt að panta eintak með því að senda tölvupóst á gunnhild@landspitali.is.
Alþjóðlegur hjartadagur er haldinn 29. september ár hvert en það er Alþjóðahjartasambandið (World Heart Federation) sem hvetur aðildarfélög sín um allan heim til að halda upp á Hjartadaginn. Á Íslandi sameinast Hjartavernd, Hjartaheill, Neistinn og Heilaheill um að halda daginn hátíðlegan.
Ellefta hjartadagshlaupið fer fram laugardaginn 23. september 2017 kl. 10:00 frá Kópavogsvelli. Hlaupið verður 5 og 10 km að venju. Hægt er að skrá sig í hlaupið hér.
Þann 29. september 2017 kl. 17:00 verður hjartagangan – lagt verður af stað frá göngubrúnnum við gömlu rafstöðinni í Elliðaárdal og gengið um Elliðaárdalinn undir forystu Hjartaheilla. Gangan er um 4 km að lengd.
Ég heiti Anney Birta Jóhannesdóttir og er 15 ára. Þegar ég var þriggja daga gömul kom í ljós að ég var með sjaldgæfan og alvarlegan hjartagalla sem kallast truncus arteriosus. Vikugömul var ég því send í opna hjartaaðgerð til Boston þar sem sett var gervislagæð í hjartað, lokað var á milli hólfa og æð víkkuð.
Ég var mjög veik fyrstu fjögur ár lífs míns og þurfti meðal annars að fara sex sinnum til Boston í aðgerðir, bæði opnar aðgerðir og aðgerðir í gegnum þræðingu. Í dag gengur mér miklu betur en ég á samt mjög líklega eftir að fara í fleiri aðgerðir í framtíðinni. Þar sem ég er með loku sem lekur þarf reglulega að skipta um loku og einnig um gerviæðina.
Ég hef þurft að vera í reglulegu eftirlit allt mitt líf. Í eftirlitinu er fylgst með hjartanu mínu. Ég fer í hjartasónar og það er tekið hjartalínurit og margt fleira. Þegar ég var lítil leið bara vika á milli skoðana en í dag fer ég á þriggja mánaða fresti.
Neistinn hefur hjálpað okkur fjölskyldunni svakalega mikið, sérstaklega þegar ég var lítil og við þurftum sífellt að fara til Boston. Þá fengu mamma og pabbi fjárhagsaðstoð frá styrktarsjóði Neistans og stuðning frá foreldrum í félaginu. Eftir að ég varð unglingur og komst í unglingahóp Neistans hef ég eignast mikið af vinum sem hafa gengið í gegnum svipaða reynslu og ég. Það er gott að fá stuðning frá þeim.
Stundum finnst mér mjög erfitt að vera veik en oftast er ég bara þakklát fyrir að vera ég því annars væri ég ekki búin að kynnast öllu því frábæra fólki sem tengist Neistanum. Ég er líka mjög þakklát fyrir að það sé fólk sem er tilbúið að hjálpa börnum eins og mér fjölskyldum okkar.
Anney Birta
Núna eru liðnir nokkrir dagar frá Reykjavíkurmaraþoninu, og búið að loka fyrir áheitasöfnun.
Í ár hlupu hátt í 120 manns fyrir félagið, og söfnuðu hvorki meira né minna en 3.332.385 krónum!
Við viljum þakka öllum hlaupurunum okkar, sem og öllum þeim sem hétu á þá, og að sjálfsögðu öllum sem mættu á hvatningarstöðina og hvöttu hlauparana áfram!
Viljum færa Farva hjartans þakkir fyrir að gefa öllum þeim sem hlupu 10 km, 21 km og 42 km hlaupaveggspjald til minningar um hlaupið. Takk fyrir okkur !
Hjartans þakkir fyrir okkur, ykkar framlag er okkur ómetanlegt!
Nú styttist í Reykjavíkurmaraþonið sem mun fara fram þann 19. ágúst n.k.
Skráningarhátíðin fer fram þann 17. og 18. ágúst í Laugardalshöllinni, og við hvetjum alla til að koma við hjá okkur þegar þeir sækja númerin sín!
Reykjavíkurmaraþonið hefur verið ein af okkar stærstu fjáröflunarleiðum undanfarin ár, og skiptir félagið mjög miklu máli en um 70 börn á ári greinast á Íslandi með hjartagalla. Við erum endalaust þakklát öllum hlaupurunum okkar og öllum sem hafa hvatt þá áfram og heitið á, og með því styrkt við starf félagsins
Til þess að sýna þakklæti okkar ákváðum að gefa öllum hlaupurum Neistans dry-fit bolimerkta félaginu og einnig munu þeir sem hlaupa 10 km, 21 km og 42 km fá hlaupaplakat í boði Farva !
Fjöldinn allur af flottu fólki ætlar að hlaupa fyrir Neistann í ár og bætist sífellt á listann!
Við viljum hvetja alla hlaupara til að minna á sig, og nota “hashtöggin” #Neistinn #ÉghleypfyrirNeistann, #skiptirekkimáliámeðanþúklárar og #Reykjavikurmarathon
Og eins og áður verður Neistinn með skemmtilega hvatningarstöð á hlaupaleiðinni við JL húsið (kort hér) sem við að sjálfsögðu hvetjum alla til að mæta á og hvetja hlauparana okkar!
Hér er hægt að skoða hlaupara Neistans og heita á þá – ÁFRAM NEISTINN!