Skip to main content
Yearly Archives

2022

Hákon Torfi hjartastrákur❤️

By Fréttir, Reynslusögur

Hákon Torfi fæddist í september 2014 með TGA, VSD og þrengingu í lungnaslagæð.

Við fórum með hann til Lund í Svíþjóð 4 daga gamlan og hann fór í aðgerð 5 daga gamall.

Það var ekki hægt að laga gallann hans þannig að hann fór í 3 aðgerðir til að breyta æðakerfinu hjá honum.

Fyrstu strax eftir fæðingu, aðra þegar hann var fjögurra mánaða og síðustu þegar hann var eins og hálfs árs.

Hann stóð sig eins og hetja í öllum aðgerðunum sem gengu eins og í sögu.  Allt gekk vel og við lentum í sáralitlum bakslögum. Smá bras með þyngdartap eftir fyrstu aðgerð og aðeins lengri tími með dren í síðustu aðgerð sem lengdi aðeins tímann okkar á spítalanum.

Í okkar tilfelli þá vissum við af hjartagallanum í 20 vikna sónar og vorum þess vegna  vel undirbúin fyrir þetta ferli þegar við loksins fengum hann í hendurnar. Það er alls ekki sjálfsagt að allt gangi upp eins og planað er í upphafi en við vorum afar lánsöm og erum full af þakklæti.

Í dag er Hákon 8 ára og hittir sinn hjartalækni á rúmlega hálfs árs fresti og hingað til hefur hann alltaf fengið toppeinkunn eftir skoðun.

 

Þótt það hafi þurft að fara aðra leið en að laga gallann þá háir þetta honum ekki í daglegu lífi. Þegar hann stækkar þá gæti hann fundið fyrir minna þreki en jafnaldrar sínir en við búum hann vel undir það og finnum tómstundir og athafnir sem henta vel. Í dag þá æfir hann samkvæmisdansa og við förum eins oft og við getum í sund. Hann hefur mikinn áhuga á tölum og stærðfræði og mjög forvitinn um heima og geyma.

Fjölskyldan fór á fullt í Neistanum eftir að hann fæddist og hefur mamma hans setið í stjórn síðan hann var 4 mánaða gamall með smá pásu. Pabbinn farið ótal sendiferðir til að redda hlutum fyrir viðburði. Báðir foreldrar hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu árlega og amman heklar og prjónar á fullu fyrir félagið.

 

Við getum með sanni sagt að við séum stolt hjartafjölskylda með Hákon Torfa sterkan í fararbroddi ❤️❤️❤️

Ævintýri í jólaskógi

By Fréttir

Neistinn bauð félagsmönnum sínum í jólaskóginn þriðjudaginn 13.desember 🎄

Ævintýri í Jólaskógi er tæplega klukkutíma löng sýning þar sem áhorfendur ganga í litlum hópum um skóginn í Guðmundarlundi, vopnaðir vasaljósum og hitta á ferðum sínum persónur úr jólafjölskyldu okkar Íslendinga, þau Grýlu, Leppalúða, jólasveinana og tröllasystkini þeirra.
Allir skemmtu sér konunglega þrátt fyrir mikinn kulda þennan dag ❄️❤️
Eftir gönguna er öllum boðið í myndatöku með jólasveini auk þess sem boðið er upp á heitt kakó og piparkökur sem var kærkomið á þessum degi. 
Takk allir sem komu og áttu með okkur ævintýralega stund í jólaskóginum ❤️

Hjartaarfi

By Fréttir

Leonard hefur aftur hafið sölu á Hjartaarfanum sem er seldur til styrktar Neistanum, styrktarfélagi hjartveikra barna.

Hjartarfi er af krossblómaætt og er algengur um allt land. Hann hefur sennilega komið hingar með landnámsmönnum og vex einkum við hús og bæi, í jörð sem hefur verið ræktuð. Aldinin eru hjartalaga og af þeim er nafnið dregið. Í gömlum lækningabókum er plantan sögð blóðstillandi.

Menið er hannað af Sif Jak­obs og Eggerti Pét­urs­syni og 20% af söluverði hvers grips renna til Neistans.

Tilvalin jólagjöf og hægt er að kaupa hálsmennið hér ❤️

Björgvin Unnar stoltur hjartastrákur

By Fréttir, Reynslusögur

Björgvin Unnar fæddist 10. nóvember 2014 með þindarslit og op á milli slegla og gátta í hjarta (VSD og ASD). Hann var með mikinn lungnaháþrýsting og þurfti að fara 5 daga gamall til Stokkhólms á ECMO  (hjarta og lungnavél).

Björgvin Unnar var sóttur af sérstöku ECMO flutningsteymi til Íslands með aðeins nokkura tíma fyrirvara. Hann var á ECMO í 3 vikur en í Stokkhólmi á Astrid Lindgren barnaspítalanum í alls 5 vikur. Hann fór í þindarslits aðgerð 8 daga gamall, þá var sett bót í gatið í þindinni. Hann þurfti svo að fara aftur í þindarslitsaðgerð tveimur mánuðum seinna og minnka bótina. Þá fyrst prófaði hann að fara af öndunarvél og fór á High-Flow öndunarstuðning.

Björgvin Unnar lagði aftur land undir fót þegar hann var 5 mánaða en þá fór hann af Vökudeildinni og hélt til Boston á Boston Children’s Hospital. Sænska teymið kom aftur og flutti hann vestur um haf. Í Boston var ekki setið auðum höndum en þar fór hann í opna hjartaaðgerð þar sem  opið milli slegla (VSD) var lagað. Það hafði komið í ljós að hann var með mörg göt og þau voru misstór. Gatið milli gátta (ASD) lokaðist að sjálfu sér þegar hjartað var búið að ná sér eftir aðgerðina og þegar lungaháþrýstingurinn minnkaði.

Einnig var settur upp sonduhnappur í þessari ferð og notar hann hann alfarið enn þann dag í dag en er í æfingum að borða um munn. Það gekk hins vegar illa að koma honum af öndunarvélinni svo það var á endanum ákveðið að setja í hann trach, eða öndunartúbu í hálsinn. Þá gat hann verið vakandi og tekið þátt í lífinu þrátt fyrir að vera tengdur við öndunarvél. Þegar heim var komið fór hann á gjörgæsluna á Hringbraut og útskrifaðist þaðan á barnadeildina. Hann var með túbuna í hálsinum þangað til hann var 5 ára en þá var hann hættur að þurfa öndunarvélina og gat andað án stuðnings.

Ári seinna kíkti hann svo aftur til Boston í frekari rannsóknir því hlutirnir voru ekki að ganga nægilega vel. Þá var farið yfir stillingar á vélinni, þeim breytt og hann fór í aðgerð þar sem magaopið var minnkað. Áður var hann að kasta upp oft á dag sem varð til þess að það fór magainnihald í lungun sem viðhélt ítrekuðum sýkingum. Magaops aðgerðin gerði það að verkum að hann kastaði ekki upp og lungun náðu
sér á strik, eins og þau geta miðað við hans sögu.

Hann útskrifaðist svo loksins heim 22 mánaða eða í september 2016. Við fengum NPA-Notendastýrða persónulega aðstoð, frá bænum okkar þegar heim var komið. Án hennar hefðum við ekki komist heim en það er gaman að segja frá því að hennar var svo ekki þörf í lok árs 2019 sem var mikill sigur því það þýddi að framfarirnar voru gríðarlegar.

Í dag er Björgvin Unnar ofurkátur skólastrákur í Hraunvallaskóla í Hafnarfirði. Honum finnst ekkert skemmtilegra en að spjalla við fólk, eiga afmæli, vera í kósý og fara í bíó. Hann tekur virkan þátt í starfi Neistans og er stoltur hjartastrákur ❤️

Unglingahittingur 6.desember

By Fréttir, Unglingastarf

Unglingahópur Neistans ætlar að hittast næstkomandi þriðjudag, 6.desember !

Neistinn býður unglingum 13 – 18 ára i Bogfimisetrið, Dugguvogi 42, kl 17:45.

Leiðbeinandinn yfir reglurnar og kennir ykkur á búnaðinn. Þegar kennslan er búin er ykkur velkomið að byrja að skjóta en leiðbeinandi verður alltaf á svæðinu og ykkar innan handar, við fáum svo 60 mínútur til að skjóta  😊

Nauðsynlegt er að skrá sig á viðburðinn með því að  senda póst á neistinn@neistinn.is – skráningu lýkur á hádegi mánudaginn 5.desember !

Hlökkum til að sjá ykkur !

Birkir og Margrét Ásdís

Hetjudáðir múmínpabba – Ævintýri ungs múmínálfs

By Fréttir

Loksins getum við aftur farið i okkar árlegu bíóferð  sem verður í boði Laugarásbíó!

Bíóferðin verður sunnudaginn 4.desember kl. 12:00.

Að þessu sinni er það myndin Hetjudáður múmínpabba – ævintýri ungs múmínálfs: Þegar múmínsnáðinn er stunginn af vespu og þarf að vera í rúminu vill múmínpabbi hressa hann við með ævintýralegum sögum úr æsku sinni. Hann segir frá því hvernig hann var misskilinn sem ungur múmínsnáði, þegar hann flýði af munaðarleysingjahæli og frá sögulegum kynnum af uppfinningamanninum Hodgkins. Þá segir hann frá hressilegri siglingu á bátnum Oshun Oxtra, hvernig hann vingaðist við draug og bjargaði múmínmömmu úr sjávarháska.

Hlökkum til að sjá ykkur í þessu sannkallaða aðventubíó 🙂

Ævintýri í jólaskógi

By Fréttir
Neistinn býður félagsmönnum sínum í jólaskóginn 13.desember næstkomandi !
Til að skrá sig þarf að senda póst á neistinn@neistinn.is og við sendum áfram hlekk til að klára skráninguna.
Farið er á 10 mín fresti og fyrsta ferðin er kl. 17:00 – ATH aðeins félagsmenn sem skrá sig geta farið í jólaskóginn ❤️
Ævintýri í Jólaskógi er tæplega klukkutíma löng sýning þar sem áhorfendur ganga í litlum hópum um skóginn í Guðmundarlundi, vopnaðir vasaljósum og hitta á ferðum sínum persónur úr jólafjölskyldu okkar Íslendinga, þau Grýlu, Leppalúða, jólasveinana og tröllasystkini þeirra.
Ferðalagið hefur verið varðað með jólakúlum, luktum og öðru jólaskrauti svo áhorfendur eigi það ekki á hættu að villast í skóginum.
Eftir gönguna er öllum boðið í myndatöku með jólasveini auk þess sem boðið er upp á heitt kakó og piparkökur.
Áhorfendur eru hvattir til að klæða sig eftir veðri, koma vel skóaðir og með vasaljós en öll þessi atriði eru nauðsynleg til að hægt sé að njóta sýningarinnar til hins ítrasta. Við mælum með sýningunni fyrir fjögurra ára og eldri en að sjálfsögðu eru allir velkomnir til okkar.
ATH Leiðin er þó ekki fær kerrum svo yngstu börnunum þarf að halda á ef þið þurfið að hafa þau með í för. Þá biðjum við ykkur um að skilja hunda eftir heima og er það bæði svo þeir trufli ekki sýninguna og aðra gesti.

Spilakvöld

By Fréttir

Og gleðin heldur áfram. Að þessu sinni hittust foreldrar hjartabarna og Taktur á árlegu spilakvöldi. Líkt og í fyrra var það haldið í sal Siglingafélagsins Ýmis, þar var aðstaðan til fyrirmyndar og það er gaman að segja frá því að félagið lánaði okkur salinn endurgjaldslaust, við erum því mjög þakklát. 

Eftir mjög kærkomna upprifjun á reglum félagsvistar hófust leikar. Sumir þátttakendur voru á fleygi ferð um salinn en aðrir gerðu sig heimakomin á borðunum, Það er algjör óþarfi að vera að flækja hlutina með að muna einhver borðanúmer. Þótt það væri spilað af mikilli ákefð og einbeitingu náðu þátttakendur þó að spjalla saman og hlæja. 

Eins og hefð er fyrir var happdrætti og margir veglegir vinningar í boði. Það voru fjölmargir aðilar meira en til í að gefa gjafabréf og flotta hluti, enginn fór tómhentur heim. Við þökkum þeim öllum einnig kærlega fyrir. 

Makar formanns og framkvæmdastjóra tóku það gríðarlega mikilvæga verkefni að sér að telja saman stigin í lokin og kom það í ljós að sigurvegararnir voru þrír. einn karl, Kjartan Birgisson og tvær konur voru jafnar að stigum, þær Anney Birta Jóhannesdóttir og Berglind Sigurðardóttir. Öll fengu þau flotta vinninga fyrir afrekið. Undirritaðri finnst þó að það megi alveg skoða það að bæta við verðlaunaflokki fyrir þann sem afrekar að fá lægstu stigin, mögulega verður það lagt fyrir nefnd. 

Takk kærlega fyrir frábært kvöld, Neistinn og Taktur! Það er mikil tilhlökkun að endurtaka leika á næsta ári. 

Jónína Sigríður Grímsdóttir

By Fréttir

Góðgerðarvika Menntaskólans við Sund var haldin vikuna 10-14.október síðastliðinn og rann allur ágóði sem safnaðist þessa vikuna til Neistans ❤️

Það var ótrúlega gaman að fylgjast með þessum flottu menntskælingum þessa vikuna – hægt er að skoða instagramsíðuna þeirra og sjá hvað fór fram hjá þeim hér .

Katrín Brynja heimsókti MS í vikunni ásamt strákunum sínum og  tók á móti styrktum til okkar.

Við færum þeim hjartans þakkir fyrir, svona styrkir eru ómetanlegir fyrir félagið okkar ❤