Fræðsluerindi: “Hjartagallar í gölluðum löndum”
Þriðjudaginn 21. apríl hélt nýi barnahjartalæknirinn okkar, Sigurður Sverrir Stephensen, erindi af merkri reynslu sinni af störfum meðal hjartveikra barna í þriðja heiminum.
Þetta var vægast sagt ákaflega forvitnilegt málefni og létu gestir sérstaklega vel af. Boðið var upp á HRESSINGU að tölu lokinni.
Styrktartónleikar: Fimm karlar á palli
Neistinn blés til sérstaklega athyglisverðra styrktartónleika á Café Rosenberg, fimmtudaginn 7. maí. Fram komu listamennirnir KK, Skúli mennski, Bjartmar Guðlaugsson Teitur Magnússon og Jóhann Helgason.
Kynnir á tónleikunum var hin geðþekka hjartamamma og fjölmiðla- og hjólakona Kolbrún Björnsdóttir
Öll gáfu þau vinnu sína og rennur ágóðinn af tónleikunum í Styrktarsjóð Neistans.
Á Fésbókarsíðu okkar má sjá myndir frá tónleikunum.
20 ára afmælishátíð Neistans í Keiluhöllinni
Á afmælisdaginn sjálfan, 9. maí héldum við rosalega afmælisveislu í Keiluhöllinni í Egilshöll. Þar var boðið upp á keilu fyrir þá sem það vildu og síðan var meiriháttar pizzupartí. Að lokum var þessi fína terta borin fram … ekki ein heldur tvær!
Myndir eru að sjálfsögðu á Fésbókarsíðunni.
Afmælisgrill í boði Securitas
Í tilefni 20 ára afmæli Neistans bauð Securitas félagsmönnum Neistans og fjölskyldum þeirra í grillveislu í Húsdýragarðinum þriðjudaginn 30. júní.
Takk, takk, kæra SECURITAS!
Norrænu unglingasumarbúðirnar
Búðirnar fóru að þessu sinni fram í Danmörku, nærri Billund á Jótlandi, dagana 17. – 23. júlí.
Um 60 manns frá öllum Norðurlöndunum (10 krakkar og 2 fararstjórar frá hverju landi) komu saman í viku og glímdu við þrautir og skemmtu sér saman. Að vanda var stór hluti gleðinnar fólginn í því að kynnast öðrum hjartakrökkum og hafa þessar búðir oft verið góður jarðvegur fyrir frekari kynni.
Guðrún Bergmann og maðurinn hennar hann Jói voru fararstjórar íslenska hópsins og létu sérstaklega vel af stemmningunni.
Sumarhátíð Neistans
Sunnudaginn 16. ágúst héldum við sumarhátíðina okkar í Guðmundarlundi.
Veðurguðirnir voru kannski ekki í banastuði, en hann hékk að mestu þurr og var mætingin til fyrirmyndar.
Skoppa og Skrítla litu við og spjölluðu við krakkana. Flykktust gestir að til að fá af sér mynd með þessum skemmtilegu fígúrum.
Grilluðu pylsurnar, drykkirnir og ísinn runnu vel niður og allir fóru glaðir heim.
Kæri ÍSBÍLL, bestu þakkir fyrir komuna og að bjóða okkur ís. Þú varst æði!
Þá sló sú nýbreytni, að bjóða upp á andlitsmálun, algerlega í gegn!
Á Fésbókarsíðu okkar má sjá skemmtilegar myndir frá hátíðinni.
Reykjavíkurmaraþon
111 hlauparar hlupu til góðs fyrir Neistann í Reykjavíkurmaraþoni í ár. Þetta var metþáttaka og safnaðis metfé, um 2,4 milljónir sem renna munu í Styrktarsjóð Neistans.
gaf öllum hlaupurum okkar sem vildu, fínan hlaupabol með Neistamerkinu og var frábært að sjá alla Neistabolina í hlaupinu.
Kærar þakkir, 10-11, fyrir þessa góðu gjöf.
Og hlauparar okkar voru ekki einir í harkinu því Neistamenn og vinir söfnuðust saman undir fánaborg yfir kakói og kleinum við hlaupabrautina hjá JL-húsinu og hvöttu sína menn. Skemmtu sér allir konunglega, hlauparar og hvetjarar.
Á myndinni má sjá hvernig hjartapabbinn Hörður Aðalsteinsson, hlaupandi heilt maraþon, eflist við eggjan hvatningarliðs félagsins.
Á Fésbókarsíðu okkar má sjá myndir frá hlaupinu.
Diskur til styrktar Neistanum: “Komdu kisa mín”
Tónlistarmaðurinn góðkunni, Jóhann Helgason, og Neistinn endurútgáfu hljómdiskinn vinsæla í tilefni af 20 ára afmæli Neistans. Diskurinn sem skartar lögum Jóhanns við þekktar kísuvísur. Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú / Snælda) syngur lögin en útsetningar voru í höndum Ragnhildar Gísladóttur.
Textabókin er einnig litabók með bráðsmellnum myndum, teiknuðum af Ingu Dóru Jóhannsdóttur.
Sala á diskinum hefur gengið vel. Hann hefur aðallega verið í símasölu en ennþá er hægt að fá hann á skrifstofu Neistans eða hér á vefnum.
Á döfinni:
Alþjóðlegi hjartadagurinn – Hjartadagshlaupið og Hjartagangan
Alþjóðlegi hjartadagurinn verður haldinn hátíðlegur á Kópavogsvelli sunnudaginn, 27. september.
Hjartavernd, Neistinn og Heilaheill hafa haldið upp á daginn með Hjartadagshlaupinu um árabil í samvinnu við Kópavogsbæ sem hefur boðið þátttakendum í sund að hlaupi loknu. Boðið verðurupp á 5 og 10 km vegalengdir. Að loknu hlaupinu verður Hjartagangan gengin og verður farið um Kópavogsdal undir leiðsögn.
Solla stirða, Goggi mega og Siggi sæti taka á móti krökkunum þegar þau koma í mark. Að lokum verður öllum boðið í sund.
Video/pizzu-kvöld unglingahóps
Bráðlega koma unglingarnir okkar saman og spjalla, háma í sig pizzu og kíkja á eitthvert flott vídeó. Annars er allt um þetta og fleira á fésbókarsíðu unglingahópsins.
Krakkar 13 ára og eldri, endilega bætið ykkur í hópinn á fésbókarsíðunni.
Fræðsluerindi
Neistinn stefnir að því að vera með fræðsluerindi í október. Nánar um það seinna.
Spilakvöld foreldra og aðstandenda (og GUCH)
Hinir fullorðnu taki frá föstudaginn 6. nóvember. Þá ætlum við aðstandendur og “stóru” hjartbörnin að koma saman – kannski með dreitil til að væta kverkarnar – og þeir sem nenna spila framsóknarvist. Svo má blaðra og bera saman verðlaunin sem flestir (ef ekki allir) fá.
Tilkynnum þáttöku með pósti á neistinn@neistinn.is ekki seinna en á 3. nóv.
Spilakvöldin hafa verið fáránlega skemmtileg.
Pílukeppni
Íslenska Pílukastsambandið ætlar að halda pílumót til styrktar Neistanum laugardaginn 21. nóvember. Mótið verður í höfuðstöðvum Pílukastfélags Reykjavíkur, Skúlagötu 26.
Keppt verður í tvímenning. Dregið í tveggja manna lið, vanur og óvanur saman (svo óvanir Neistamenn geta skráð sig og barasta unnið). Nánar um fyrirkomulag þegar nær dregur.
Jólaball Neistans
…og ekki gleyma jólaballinu. Við erum að tala um sunnudaginn 6. desember. Það þarf náttúrulega ekki að hafa mörg orð um jólaballið, þangað koma venjulega allir (m.a.s. jólasveinninn).
Hver og einn leggur í hressingarpúkkið en Neistinn skaffar jólatré, hljómsveit, nammipoka (ef jólasveinarnir klikka ekki).